Fréttir


Samkomulag undirritað um eignagrunn Landsnets hf.

4.7.2005

Þann 1. júlí var skrifað undir samkomulag um verðmæti flutningsvirkja og annars lausafjár á milli Landsnets hf. og þeirra fyrirtækja sem kosið hafa að leggja sín flutningsvirki inn í Landsnet hf.

Fyrirtækin sem um ræðir eru Landsvirkjun sf., Orkubú Vestfjarða hf. og RARIK. Stuðst var við samkomulag samningsnefndar flutningsvirkja frá 4. ágúst 2004, auk þess sem leyst var úr ýmsum fyrirvörum í því samkomulagi. Landsnet mun þó leigja eignirnar fram til næstu áramóta en þá munu þær formlega ganga til fyrirtækisins. Samkvæmt raforkulögum mun Orkustofnun ákveða leiguverð flutningsvirkjanna. Jafnframt var lagður grunnur að endanlegum eignahlutföllum þar sem fyrirtækin munu fá greitt með hlutfé eða skuldabréfum eftir atvikum. Samkvæmt samkomulaginu mun Landsvirkjun eiga um 70% í sameiginlegu fyrirtæki, RARIK 24% og Orkubú Vestfjarða 6%. Virði þeirra eigna sem samkomulagið nær yfir er um 27 milljarðar og er gert ráð fyrir 20% eiginfjárhlutfalli Landsnets.
 
Starfsmenn Orkustofnunar komu að uppgjörsvinnunni en verðmæti flutningsvirkjanna í samkomulaginu myndar grunn fyrir tekjumörk Landsnets í framtíðinni og áritaði orkumálastjóri  samkomulagið ásamt fulltrúum fyrirtækjanna. Samkomulagið var unnið af LEX-Nestor lögmannsstofu.

Viðstaddir voru:
Eiríkur Briem, Landsneti; Pétur Þórðarson, RARIK; Árni Stefánsson, Landsneti; Stefán Pétursson, Landsvirkjun; Þórður Guðmundsson, Landsneti; Friðrik Sophusson, Landsvirkjun; Þorkell Helgason, Orkustofnun; Haukur Eggertsson, Orkustofnun; Tryggvi Þór Haraldsson, RARIK; Helgi Jóhannesson, LEX-Nestor lögmannsstofu og Karl Axelsson, LEX-Nestor lögmannsstofu.