Fréttir


Stærsta jarðvarmaveita í heimi verður byggð í Kína í samstarfi við íslensk fyrirtæki

23.5.2005

Sendinefnd á sviði jarðhita sótti Alþýðulýðveldið Kína heim í lok ágúst 2001 í boði ráðuneytis landgæða og auðlinda í Kína.

Í sendinefndinni voru:

  • Þorkell Helgason, orkumálastjóri, formaður sendinefndarinnar
  • Ásgeir Margeirsson, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
  • Guðni Axelsson, deildarstjóri forðafræðideildar Rannsóknasviðs Orkustofnunar
  • Ólafur G. Flóvenz, framkvæmdastjóri Rannsóknasviðs Orkustofnunar
  • Þorkell Erlingsson, verkfræðingur, Enex hf.

Staðirnir sem sendinefndin heimsótti voru Beijing og nágrenni, Xian, höfuðborg Shaanxi-fylkis, og nágrenni og Tíbet, aðallega höfuðborgin Lhasa.

Það kom fljótt fram í ferðinni að í Shaanxi-fylki var mikill áhugi á samstarfi, bæði í höfuðborginni Xian en einkum í borginni Xianyang. Jarðhiti er þarna víða og hiti góður. Varaborgarstjóri Xianyang, Zhang Li Young, hitti sendinefndina að máli til að ræða möguleika á samstarfi en Xianyang er búin að vera í örum vexti undanfarin ár.

Fulltrúar beggja aðila undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf á vinnslu jarðhita í Xianyang.

Nú hefur svo verið undirritað samkomulag milli fyrirtækjanna Enex hf., Orkuveitu Reykjavíkur og Íslandsbanka hf. við Shanxi CGCO orkufyrirtækið og fjárfestingarfélag Xianyang-borgar í Kína um samstarf um að leggja hitaveitu í nýtt hverfi sem á að rísa í borginni. Hitaveitan verður stærsta jarðvarmahitaveita heims. Jarðvarmi hefur áður verið notaður til að hita upp einstök hús eða hótel í Kína, en ekki heilu hverfin.

Samkomulagið var undirritað við heimsókn forseta Íslands til Kína 15. - 22. maí sl. á ráðstefnu sem haldin var af sendiráði Íslands í Kína, Útflutningsráði, Kínverska viðskiptaráðinu og Verslunarráði Evrópu.