Fréttir


Gagnavefsjá Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna valin í forval í landskeppni Nýmiðlunarverðlauna Sameinuðu þjóðanna

10.5.2005

Dómnefnd hefur valið   Gagnavefsjá Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna eitt þeirra fimmtán verkefna sem komast í forval landskeppni Nýmiðlunarverðlauna Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar útnefningarinnar mun Gagnavefsjáin verða kynnt á sýningu þann 21. maí í Öskju - náttúrufræðahúsi HÍ. Þann sama dag verður jafnframt tilkynnt hvaða verkefni verða send áfram af Íslands hálfu í aðalkeppnina í Túnis í haust.

Nýmiðlunarverðlaun Sameinuðu þjóðanna, World Summit Award (WSA), er samkeppni sem haldin er samtímis um allan heim. Tilgangurinn með verðlaununum er að velja og kynna besta stafræna efnið og nýmiðlun  í veröldinni um þessar mundir.

Að skipulagningu samkeppninnar standa fulltrúar 168 landa í fimm heimsálfum og er meginmarkmiðið að brúa bilið milli þeirra sem skammt og langt eru komnir í upplýsingatækni og efla gerð net- og nýmiðlunarefnis í heiminum.

Efnt er til samkeppninnar að frumkvæði European Academy of Digital Media (EADiM; sjá www.europrix.org/europrix/Academy.htm), en keppnin er skiplögð og unnin undir merkjum Leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um upplýsingasamfélagið (The United Nations World Summit on the Information Society – WSIS (2003-2005); sjá nánar á vefsíðunni: www.wsis-award.org).
      
Auglýst er eftir tilnefningum á íslenskum nýmiðlunarlausnum í landskeppni World Summit Award - nýmiðlunarverðlauna Sameinuðu þjóðanna.
Tilnefningar til verðlaunanna skiptast í átta flokka: Opinbera stjórnsýslu, heilsu, menntun, afþreyingu, menningu, vísindi, viðskipti og efni sem stuðlar að því að brúa bil milli menningarheima. Þær tilnefningar sem berast fara fyrir dómnefnd sem velur bestu lausnina í hverjum flokki.

Landskeppni World Summit Award er opin öllum þeim fyrirtækjum, samtökum og einstaklingum sem virk eru í upplýsingatækni og nýmiðlun og  stunda starfsemi sína á Íslandi. Allt efni skal vera frá árunum 2004 eða 2005.
Verðlaun í flokkunum átta verða veitt á verðlaunahátíð sem haldin verður í Háskóla Íslands laugardaginn 21. maí. Þau verkefni sem hljóta verðlaun verða lögð fyrir aðaldómnefnd WSA keppninnar, sem sker úr um tilnefningar og verðlaunaverk þau er kynnt verða í Túnis í nóvember 2005.

Keppnin hér á landi er skipulögð í samvinnu Háskóla Íslands, menntamálaráðuneytisins og Samtaka iðnaðarins.

Vefur íslensku verðlaunanna: www.hi.is/page/wsa2005