Fréttir


Alþjóðabankinn vill auka notkun endurnýjanlegrar orku í þróunarlöndum

10.5.2005

Fyrir skömmu funduðu starfsmenn Alþjóðabankans með fulltrúum Norðurlandanna um það hvernig auka mætti nýtingu endurnýjanlegrar orku í þróunarlöndum en ákveðið hefur verið að Alþjóðabankinn auki verulega lán og styrki til orkumála. Voru fundarmenn sammála um mikilvægi þess að auka bæði framboð á orku í þróunarlöndunum og auðvelda íbúum aðgang að henni. Mikilvægt er í þessu sambandi að auka hlut endurnýjanlegrar orku, en í þróunarlöndunum er víða hægt að virkja vatnsorku og jarðhita, auk þess sem hægt er að nota þar varmadælur, vindmyllur og sólarorku.

Hvetja þarf fyrirtæki til að leggja fram fjármagn og taka þátt í verkefnum á þessu sviði, en einnig þarf að auka tækniþekkingu í löndunum.
Stefnt er að því að Norðurlöndin vinni meira saman þegar kemur að orku og þróunarmálum, en Norðurlandaþjóðirnar búa yfir mikilli þekkingu á endurnýjanlegri orku, hver á sínu sviði, og munu Íslendingar tefla fram þekkingu sinni á jarðhita og vatnsorku.

Endurnýjanleg orka eykur öryggi í orkuframboði, sérstaklega hjá þeim þjóðum sem verða að stórum hluta að treysta á innflutta orku, svo sem olíu og kol.

Fulltrúar Íslands á fundinum voru Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, settur orkumálastjóri, Jón Erlingur Jónasson, sendiráðunautur, frá utanríkisráðuneytinu og Már Másson, viðskiptafulltrúi íslenska sendiráðsins í Danmörku.

Norðmenn hafa tekið að sér að vera í forsvari áframhaldi þessarar vinnu.