Fréttir


Útskýringar á háum rafmagnsreikningum

5.4.2005

Vegna frétta undanfarna daga um miklar hækkanir á raforkuverði m.a. til íbúa á Vopnafirði vill Orkustofnun koma eftirfarandi á framfæri.

Samkvæmt gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins og útreikningum Orkustofnunar hækkar einingarverð rafmagns til húshitunar í þéttbýli, kílówattstundir, að jafnaði sem hér segir miðað við heildarnotkun.

            Ársnotkun notanda, kWst.
20.0000
30.000
40.000
50.000
0,7%
4,4%
6,5%
18,8%

Þær verulegu hækkanir  á Vopnafirði sem nefndar hafa verið í fjölmiðlum stafa af uppgjöri síðustu mánaða. Vegna breytinga á raforkulögum  reyndist nauðsynlegt að hafa auka aflestur af mælum á veitusvæði RARIK á fyrstu mánuðum þessa árs áður en ný gjaldskrá gat tekið gildi. Það tímabil sem nú er verið að gera upp eru því hreinir vetrarmánuðir en fram að þessu hafa uppgjörsreikningar verið fyrir allt árið. Raforkunotkun einstakra vetrarmánaða á svæðum þar sem hús eru hituð með rafmagni getur numið allt að fimmfaldri sumarnotkun. Þetta þýðir að ef árlegur álestur er fluttur frá hausti til vors þá þurfa notendur að borga "raunverð" fyrir veturinn áður en nýtt meðal-mánaðargjald tekur við. Að sama skapi myndu notendur fá töluverða endurgreiðslu við uppgjör ef álestur væri fluttur frá vori til hausts. Í hnotskurn má segja að þeir sem lesið er af  hjá að vori "láni" orkufyrirtækinu en þeir sem lesið er af hjá að hausti "fái lánað" hjá dreifiveitunni.

Þessu til viðbótar má nefna að útgáfa reikninga RARIK tafðist nokkuð í ársbyrjun vegna kerfisbreytinga á raforkumarkaðinum og því er nokkuð um það að áætlunarhluti reiknings sé fyrir lengra tímabil en venjulega, sem hefur ennfremur áhrif til hækkunar sumra uppgjörsreikninga eins og í þeim tilfellum sem nefnd hafa verið á Vopnafirði.

Því er ekki um að ræða varanlega kostnaðarhækkun umfram það sem lesa má úr í töflunni hér að framan heldur atriði er varða uppgjör og álestra.