Jarðhitabók Guðmundar Pálmasonar er komin út
Guðmundur Pálmason hafði forrystu um rannsóknir og nýtingu jarðhita á Íslandi þegar hann gegndi starfi forstöðumanns jarðhitadeildar Orkustofnunar. Íslendingar komust þá í fremstu röð þeirra þjóða sem færa sér jarðhita í nyt. Í bókinni er rakin framvinda jarðhitarannsókna hér á landi og sagt frá þeim er ruddu þar braut. Fjallað er um uppruna og eðli jarðhitans, vinnslu hans og margvísleg not af honum í íslensku þjóðlífi. Lagt er mat á það hversu varanleg auðlind jarðhitinn sé. Þá er vikið að áhrifum nýtingar á umhverfið og rætt um nauðsynlega vernd jarðhitafyrirbæra. Loks er í bókinni annáll ýmissa viðburða sem tengjast rannsóknum og nýtingu jarðhita allt frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Efnt var til athafnar í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem Ólöfu Jónsdóttur, ekkju Guðmundar, og Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra voru afhent fyrstu eintökin.
Þar flutti Ólafur G. Flóvenz, forstjóri Íslenskra orkurannsókna ávarp, þar sem hann rakti tilurð bókarinnar. Guðmundur, sem lést fyrir réttu ári síðan, vann að bókinni í um 7 ár. Þegar hann lést hafði hann að mestu leyti lokið við bókina en eftir var talsverð vinna við uppsetningu og heimildaskrár. Sveinbjörn Björnsson, fyrrv. deildarstjóri auðlindadeildar Orkustofnunar og Ólafur Pálmason voru í forystu fyrir því að ganga frá bókinni til prentunar. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag ásamt Orkustofnun og Íslenskum orkurannsóknum.
Bókin er ríkulega myndskreytt og í senn fræðslurit og menningarsöguleg heimild við hæfi fróðleiksfúsra lesenda, eins og segir á kápu bókarinnar. Hún fæst í bókabúðum.
![]()
Ólöf Jónsdóttir
|
![]()
Ólafur G. Flóvenz
|
![]()
Valgerður Sverrisdóttir
|
![]()
Þorkell Helgason
|
