Fréttir


Mesta aukning almennrar forgangsorku í tvo áratugi

16.3.2005

Í samantekt Orkuspárnefndar, sem nýlega hefur verið birt, kemur fram að raforkunotkun hér á landi hefur aukist mikið síðustu árin, aðallega vegna eflingar orkufreks iðnaðar. Almenn notkun hefur einnig vaxið talsvert en árin 2002 og 2003 dró nokkuð úr þeim vexti. Árið 2004 jókst hann að nýju og hefur notkun almennrar forgangsorku ekki vaxið jafn mikið frá árinu 1987. Raforkunotkun á íbúa er sú mesta í heiminum hér á landi og á síðasta ári notaði hver Íslendingur að meðaltali 29.500 kílóvattstundir af raforku og er þar bæði um að ræða notkun heimila, fyrirtækja, og stóriðju. Til samanburðar notar meðalheimilið um 4.000 kílóvattstundir af raforku til annarra þátta en hitunar húsnæðis.
frett_16032005

Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem fram koma í samantekt Orkuspárnefndar, sem er samstarfsvettvangur Efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis, Fasteignamats ríkisins, Hagstofunnar, Orkustofnunar og Samorku auk þess sem sérfræðingur í eldsneytismálum á sæti í nefndinni. Orkuspárnefnd gefur á hverju ári út spá um raforkunotkun landsmanna, og á um fimm ára fresti er spáin endurskoðuð frá  grunni og birt í ítarlegu riti. Einnig birtir nefndin spár um aðra orkugjafa.

Notkun stóriðju stóð í stað


Árið 2004 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 8.619 GWh (ein GWh, gígavattstund er milljón kílóvattstunda) og hafði þá aukist um 1,5% frá árinu áður. Raforkunotkun stóriðjuveranna nam 5.231 GWh en almenn notkun 3.134 GWh. Notkun stóriðju stóð í stað frá árinu 2003 eftir mikla aukningu á árunum 1996-2003. Aukin notkun stóriðju á þeim árum er álíka mikil og öll almenn notkun á landinu á síðasta ári.

Mesta aukning almennrar forgangsorku frá 1987


Á síðasta ári var meiri hlutfallsleg aukning almennrar forgangsorku en sést hefur í tæp tuttugu ár eða frá 1987. Þessi mikla aukning skýrist m.a. af framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun þar sem mikil raforka er notuð við framkvæmdirnar. Ef sá þáttur er tekinn út verður aukning annarrar almennrar notkunar svipuð og hún var á árunum 1999 til 2001. Sveiflur í raforkunotkun eru að jafnaði í takt við sveiflur í landsframleiðslunni, en þó yfirleitt minni í raforkunotkuninni.  Hagvaxtarbreytingar skila sér þó ekki strax í raforkunotkun svo sem þegar hagvaxtarskeið hófst árið 1994 en það kom ekki fram í raforkunotkun fyrr en 1995.

Nánari upplýsingar veitir Þorkell Helgason, orkumálastjóri og formaður Orkuspárnefndar. Einnig má fræðast um orkuspár á vef Orkuspárnefndar.

Ítarlegri umfjöllun um samantektina