Fréttir


Tjörnesverkefnið hlaut Menningarverðlaun DV í flokki fræða

3.3.2005

Fimmtudaginn 25 febrúar 2005 voru Menningarverðlaun DV veitt. Veitt voru verðlaun í flokki fræða í fyrsta sinn og hlaut Tjörnesverkefnið þennan heiður. Bryndís Brandsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands veitti verðlaununum móttöku fyrir hönd allra samstarfsaðila.

Fimmtudaginn 25 febrúar 2005 voru Menningarverðlaun DV veitt. Veitt voru verðlaun í flokki fræða í fyrsta sinn og hlaut Tjörnesverkefnið þennan heiður. Bryndís Brandsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands veitti verðlaununum móttöku fyrir hönd allra samstarfsaðila.

Markmið þessa samstarfsverkefnis er að kortleggja hafsbotninn í Tjörnesbrotabeltinu og þá sérstaklega misgengi, botnform og setlög í þrívídd með fjölgeisla- og endurkastsmælingum auk botnsýnatöku. Að þessu verkefni hafa staðið Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands ásamt erlendum háskólastofnunum, en þeirra megináhersla hefur verið að rannsaka jarðhnik og eldvirkni á fyrrgreindu svæði. Hafrannsóknarstofnunin tók þátt í verkefninu með áherslur á almennar jarðfræðirannsóknir og kortlagningu á landgrunni Íslands og Sjómælingar Íslands sáu einnig um hluta kortlagningarinnar.

Orkustofnun hefur tekið beinan þátt í þessu samstarfsverkefni frá því 2002, en  Íslenskar orkurannsóknir hafa sinnt rannsóknunum fyrir hönd Orkustofnunar frá því um mitt sumar 2003.

Orkustofnun, fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins hefur unnið að ýmsum rannsóknum á þessu svæði í meira en þrjá áratugi og þá fyrst og fremst vegna auðlindakönnunar. Á áttunda áratugnum fundust vísbendingar um þykk setlög úti fyrir norðurlandi með þyngdarmælingum. Einnig höfðu verið gerðar hljóðendurvarpsmælingar 1978 og 1985 er náðu að hluta til yfir Tjörnesbrotabeltið. Borað var síðan í Flatey 1982. Var þá strax orðið nokkuð ljóst að úti fyrir norðurlandi væri stórt trog með allþykku seti í tengslum við þverbrotabeltið milli Kolbeinseyjarhryggjar og Norðurlandsgosbeltisins. Árið 1999 var síðan gert fyrsta grófa kortið af hafsbotni fyrir norðan land úr eingeislamælingum Sjómælinga Íslands.

Árið 1987 uppgötvaðist fyrir tilviljun að jarðgas streymdi upp úr söndum Öxarfjarðar, er verið var að bora eftir heitu vatni. Kom í ljós að þetta var olíu- eða kolagas, svipað því sem finnst víða á þekktum olísvæðum. Þetta var síðar sannreynt aftur um áratug síðar. Hugmyndir voru uppi um að surtarbrandslög svipuðum þeim er finnast á Tjörnesi gætu verið upprunaberg þessa gass. Styrkum stoðum var rennt undir þá hugmynd árið 2000 með rannsóknarborunum í Tjörnessetlögin og frekari athugunum á samsetningu gassins.

Þegar ljóst var að áhugi á hafsbotninum í Tjörnesbrotabeltinu var víðtækari en það er sneri að auðlindakönnun, var tækifærið gripið og tekið upp samstarf við fyrrnefndar stofnanir. Með slíku samstarfi var hægt að safna mismunandi gögnum af víðtækari svæðum en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir þar sem fjármögnunin nýttist mun betur. Þar að auki treystist grundvöllur faglegrar þekkingar. Hefur þetta samstarf verið afar farsælt síðastliðin þrjú ár.

Verkefnið hefur verið fjármagnað af rannsóknasjóði, vísindasjóði og markáætlun RANNÍS, iðnaðarráðuneytinu, rannsóknasjóði HÍ og Hafrannsóknastofnuninni. Ennfremur hafa erlendir samstarfsaðilar greitt eigin kostnað og hluta af skipatíma hér við land.

frett_03032005
Nýtt kort af hafsbotninum í Tjörnesbrotabeltinu og á sunnanverðum Kolbeinseyjarhrygg.