Fréttir


Orkuþing skóla í Perlunni, 25.- 26. febrúar

27.1.2005

Efnt verður til orkuþings skóla í Perlunni dagana 25.og 26. febrúar undir heitinu ORKA -  FRÁ NÁTTÚRU TIL NEYTENDA. Sýning á verkefnum nemenda mun standa til 1. mars.

Orkuþing skóla er ætlað nemendum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Nemendur fá kennslu um orku í náttúrunni og samfélaginu í margvíslegu samhengi og fjölbreytileg námsverkefni unnin. Nemendur kynna síðan afrakstur vinnu sinnar á orkuþinginu í máli, myndum, með leikræni tjáningu eða á annað hátt sem þeim hugkvæmist. Markmiðið er að fram komi áhugaverð námsverkefni og farnar fjölbreyttar leiðir í kennslu um orku til að auðvelda nemendum skilning á henni og áhrifum hennar í náttúrunni og í samfélaginu og skapa vettvang til að kynna og ræða árangurinn og niðurstöðurnar.

Að orkuþingi skóla stendur íslenski NORDLAB hópurinn í samvinnu við Samorku, ýmis orkufyrirtæki og stofnanir, þar á meðal Orkustofnun og Orkusjóður. NORDLAB er norrænt verkefni undir Norrænu ráðherranefndinni sem ætlað er  að stuðla að bættri kennslu í náttúrufræðum og stærðfræði með því að styrkja menntun og reynslu kennara til að beita fjölbreytilegum leiðum í kennslu. Á Íslandi hefur verið unnið að gerð sérstaks ORKUVEFS í þeim tilgangi sem verður aðgengilegur skólum. Nokkrir kennarar Klébergsskóla vinna að undirbúningi þingsins ásamt samstarfsnefnd Samorku og NORDLAB hópsins.

Tengiliður Orkustofnunar vegna þingsins er Helga Tulinius og veitir hún nánari upplýsingar. Netfang Helgu: htul@os.is