Fréttir


Ekki tilefni til hækkana vegna nýrra raforkulaga

20.1.2005

Ný skipan raforkumála kom til framkvæmda um sl. áramót. Þessi nýskipan ein sér gefur ekki almennt tilefni til umtalsverðra breytinga á raforkuverði. Þó má búast við nokkrum tilfærslum milli svæða og neytendahópa. Þannig má rekja um 2-4% af hækkun á raunverði rafmagns suðvestanlands til breytingarinnar en með sama hætti ætti hún að leiða til lækkunar á veitusvæði RARIK, einkum í þéttbýli.
  • Afkoma raforkufyrirtækjanna hefur verið misjöfn en í heild var arður af bundnu fé neikvæður árin 2002 og 2003. Mörg fyrirtækjanna eru greinilega að nýta tækifærið nú til að bæta stöðu sína. Þetta gera þau m.a. með því að fella niður ýmsa sérívilnun sem tíðkast hefur, en líka með aukinni arðsemiskröfu.
  • Almennt virðast nýjar gjaldskrár færa byrðar frá stærri notendum til smánotenda. Ekki er þar með sagt að þetta sé óeðlileg breyting, þar sem fastakostnaður – t.d. við dreifingu – er mikill og því ekki óeðlilegt að drjúgur hluti af kostnaði við dreifinguna sé innheimtur með fastagjaldi.
  • Með nýjum raforkulögum er kostnaður við dreifingu í þéttbýli og dreifbýli aðskilinn, samhliða því að ríkissjóður greiðir niður dreifingu á raforku í dreifbýlinu. Raforkuverð lækkar almennt í þéttbýli á þéttbýlissvæðum RARIK og sama mun væntanlega gerast hjá Orkubúi Vestfjarða. Jafnframt lækkar verð almennt hjá fyrirtækjum á dreifbýlisvæði RARIK, en þar verður aftur á móti nokkur hækkun hjá heimilunum.
  • Vegna brottfalls ýmissa sérkjara – sem aðeins að hluta til má rekja til raforkulaganna– verður talsverð hækkun á raforkukostnaði þeirra heimila sem hita upp með rafmagni.
  • Þess misskilnings virðist gæta að fyrirtækjunum séu settar þröngar skorður við samsetningu gjaldskráa sinna. Hið sanna er að gjald fyrir flutning og dreifingu má að vísu ekki taka mið af því til hvers á nota orkuna, svo sem til húshitunar. En rök geta engu að síður verið fyrir því að taka tillit magns og notkunarmunsturs, sem þá gæti komið notendum húshitunarrafmagns og öðrum með svipaða notkun til góða. Og hvað varðar orkuverðið sjálft, þ.e.a.s. samkeppnisþátt verðsins, er ekkert í raforkulögum sem bannar sérkjör.