Fréttir


Norræn skýrsla um smásölumarkað raforku á Norðurlöndum

9.11.2005

Samtök eftirlitsstofnana með orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum (NordREG) hafa í samræmi við verkáætlun ársins 2005 lokið við gerð skýrslu sem fjallar um smásölumarkað raforku á Norðurlöndunum. Skýrslan heitir Supplier Switching in the Nordic Countries - Current practices and recommendations for the future development.

Í skýrslunni eru settar fram tillögur að aukinni samræmingu á smásölumarkaði milli Norðurlandanna. Vinna við að koma á sameiginlegum smásölumarkaði á Norðurlöndunum (þó án Íslands) fer fram í tveimur vinnuhópum, þar sem fjallað er um jöfnun á raforkumarkaði annars vegar og smásölumarkað hins vegar. Vinna hópanna mun leggja grunn að tillögum NordREG um sameiginlegan smásölumarkað á Norðurlöndunum. Í skýrslunni er lýst stöðu mála í dag í hverju landanna fyrir sig, helstu annmörkum og tillögum til úrbóta. Tillögurnar verða lagðar fyrir ráðherranefnd Norðurlandaráðs á fundi hennar 1. mars 2006.

Reynslan hefur sýnt að almennir raforkunotendur eru fremur áhugalausir um að leita eftir tilboðum í raforku frá sölufyrirtækjum til að fá lægra verð. Þetta áhugaleysi hefur valdið yfirvöldum á Norðurlöndunum áhyggjum, þar sem hvati til samkeppni verður að koma frá raforkunotendunum sjálfum. Ástæður fyrir áhugaleysinu eru margvíslegar og sumar e.t.v. skýranlegar. Má þar m.a. nefna að í upphafi var krafist gjalds af þeim notendum sem skiptu um sölufyrirtæki fyrst og fremst vegna kostnaðar dreifiveitnanna af mælaálestri og umsýslu vegna skiptanna svo og takmarkaðar upplýsingar frá yfirvöldum og raforkufyrirtækjum.

Orkustofnun telur að efni skýrslunnar sé gagnlegt fyrir starfsmenn dreifiveitna og sölufyrirtækja.

Vakin er athygli á að nafn samtaka eftirlitsstofnananna hefur breyst úr Forum of Nordic Energy Regulators (FNER) í Nordic Energy Regulators (NordREG)

Skýrslan á rafrænu formi

Einnig má nálgast eintök á bókasafni Orkustofnunar.