Fréttir


Þitt er valið um áramót - opinn raforkumarkaður

23.11.2005

Þitt er valið um áramót - opinn raforkumarkaður, nefnist nýútkominn bæklingur sem iðnaðarráðuneytið hefur gefið út.

Í bæklingnum er farið yfir þær breytingar sem verða á raforkumarkaðnum hér á landi þann 1. janúar næstkomandi, en þá geta allir raforkunotendur keypt raforku af þeim raforkusala sem þeir helst kjósa, óháð búsetu. Þetta þýðir t.d. að raforkunotandi á Húsavík getur keypt orku frá Orkubúi Vestfjarða og Vestfirðingar geta snúið sér til Hitaveitu Suðurnesja.

Hafi menn ekki frumkvæði að því að skipta um raforkusala, fá þeir áfram rafmagn frá þeim sem þeir skipta við í dag. Neytendum er hins vegar alltaf frjálst að endurskoða viðskipti sín við raforkusalann og það er notendum að kostnaðarlausu að skipta.

Frá því í janúar á þessu ári hafa aflmældir raforkunotendur sem nota meira afl en 100 kW haft þetta val.

Þau fyrirtæki sem bjóða rafmagn á frjálsum markaði eru sjö.

Hitaveita Suðurnesja
Norðurorka
Orkubú Vestfjarða

Orkuveita Húsavíkur
Orkuveita Reykjavíkur
Rafmagnsveitur ríkisins – RARIK
Rafveita Reyðarfjarðar

Bæklinginn má lesa hér á pdf formi

Bæklingunum hefur verið dreift inn á öll heimili í landinu. Einnig er hægt að fá eintak á bókasafni Orkustofnunar.