Fréttir


Húsnotkun jarðhita

20.1.2011

Jarðhitanotkun til húshitunar og annarra húsnota jókst mikið fram eftir allri síðustu öld.

Stærstur hluti notkunarinnar fer til upphitunar húsnæðis, en einnig fer nokkur hluti í not á borð við matseld, böð og þvotta.  Yfir tímabilið 1970-2008 jókst notkunin úr 5,0 PJ í 18,8 PJ.

Fyrri helming tímabilsins jókst notkunin að meðaltali um 5,8% á milli ára, en frá 1989 fram til 2008 var meðalvöxturinn einungis um 1,3%. Á seinni helmingi tímabilsins nam meðalfjölgun íbúa landsins um 1,2% á milli ára og vöxtur í húsnotkun jarðhita því einungis lítillega meiri. Árið 1970 var meðalhúsnotkun á íbúa 24,5 GJ þegar horft er yfir landið í heild, árið 1989 hafði hún aukist í 58,4 GJ en eftir það hefur aukningin aðeins numið að meðaltali 0,1% á milli ára og stóð í 59,6 GJ árið 2008. Aukin notkun á íbúa getur stafað af útþenslu og fjölgun hitaveitna þ.a. veiturnar nái til íbúa sem áður nutu ekki jarðhita, flutningi íbúa frá svæðum án jarðhita til svæða sem hafa upp á jarðhita að bjóða, aukinni notkun á jarðhitasvæðum s.s. vegna stærra húsnæðis eða aukningu á notkun framrásarvatns til snjóbræðslu við heimahús, eða samblandi af þessum þáttum. Sú litla aukning sem orðið hefur á húsnotkun m.v. höfðatölu á síðustu tveimur áratugum bendir til þess að markaðurinn sé orðinn mettaður.Throun-husnotkunar-a-landsvisu-og-ibua

Fjölmennum byggðum sem staðsettar eru í færi við jarðhita hefur þegar verið séð fyrir vatni og má ætla að nú hafi um 90% landsmanna aðgang að þessari auðlind, en framlag nýrra veitna á köldum svæðum er hlutfallslega lítið. Með tímanum má búast við að aukning í húsnotkun haldist að mestu í hendur við mannfjöldaþróun, þó margvíslegir aðrir þættir, s.s. byggðaþróun, verðlagning hitaveituvatns, einangrun húsa og takmörk jarðhitakerfa geti einnig haft áhrif.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Orkustofnunar, "Jarðhitanotkun til raforkuvinnslu og beinna nota til ársins 2009".


Mynd:  Þróun húsnotkunar á landsvísu og húsnotkunar á íbúa frá 1970.