Fréttir


Orkustofnun veitir Landsvirkjun leyfi til rannsókna á jarðhita, grunnvatni og efnisnámum í landi Norðurþings, Þeistareykja og Reykjahlíðar í Gjástykki

11.1.2011

Orkustofnun veitti í gær, þann 10. janúar 2011, Landsvirkjun leyfi til rannsókna á jarðhita, grunnvatni og efnisnámum í landi Norðurþings, Þeistareykja og Reykjahlíðar í Gjástykki.

Við undirbúning leyfisveitingarinnar var leitað umsagnar umhverfisráðuneytis, sem leitaði umsagnar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar. Þá leitaði Orkustofnun einnig umsagnar sveitarfélaganna Norðurþings, Skútustaðarhrepps og Þingeyjarsveitar sem og Landeigenda Reykjahlíðar ehf.

Leyfið felur í sér heimild til rannsókna á jarðhita, grunnvatni og efnisnámum á rannsóknarsvæðinu, sem og almennra umhverfisrannsókna sem nauðsynlegar eru til að kanna áhrif hugsanlegrar nýtingar á umræddar auðlindir, í samræmi við rannsóknaráætlun leyfishafa.

Leyfið gildir frá 10. janúar 2011 til 31. desember 2013.

Leyfið felur ekki í sér heimild til nýtingar á jarðrænum auðlindum á rannsóknarsvæðinu. Komi til nýtingar þarf leyfishafi að sækja um sérstakt virkjunarleyfi og/eða nýtingarleyfi og ná samkomulagi við umráðahafa réttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar.

Sjá rannsóknarleyfið