Fréttir


Raforkuspá 2010-2050

10.1.2011

Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur gefið út nýja raforkuspá sem nær allt til ársins 2050.

Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur gefið út nýja spá um raforkunotkun hér á landi sem nær fram á miðja þessa öld en síðast gaf nefndin út slíka spá árið 2005. Áætluð notkun til lengri tíma litið er heldur meiri nú en í síðustu spá, sérstaklega úttekt frá flutningskerfinu (stóriðja)  enda er eins og í fyrri spám einungis tekið tillit til samninga sem gerðir hafa verið um slíka orkusölu þegar spáin er gerð. Spá um almenna notkun hefur staðist vel á undanförnum árum en þó var aukningin meiri en spáð var fram til 2008 enda mikill hagvöxtur þau ár. Almenn raforkunotkun hefur minnkað síðustu tvö ár samhliða samdrætti í efnahagsmálum og er þetta í fyrsta skipti sem einhver samdráttur að ráði er í notkuninni allt frá kreppuárunum á 4. áratug síðustu aldar.

Almenn heimilisnotkun utan rafhitunar hefur frá því síðasta spá kom út haldið áfram að vaxa hratt en ef horft er aftur til ársins 1996 hefur hún aukist úr 3,5 MWh/heimili í 4,9 MWh/heimili. Helstu orsakir hækkunarinnar eru að tækjum hefur fjölgað mikið á heimilum á þessu tímabili svo sem sjónvörpum og tölvum. Einnig hefur vægi raforku í útgjöldum heimila minnkað yfir þetta tímabil og af þeim sökum er minni hvati til að spara orkuna en áður. Áfram er gert ráð fyrir aukningu í notkun heimila og að hún verði komin í 5,4 MWh/heimili árið 2020 en standi í stað eftir það. 

Í atvinnustarfsemi utan stóriðju hefur raforkunotkun vaxið hraðast í þjónustu en notkun í iðnaði hefur aftur á móti minnkað frá því síðasta spá kom út og á það við um flesta meginflokka iðnaðar. Samhliða uppbyggingu virkjana á undanförnum árum hefur notkun raforku við veitustarfsemi aukist og er þar að mestu um að ræða eigin notkun í virkjunum. Hlutfallsleg töp við flutning og dreifingu raforku hafa farið minnkandi á undanförnum árum samhliða hröðum vexti notkunar og voru flutningstöp árið 2009 um 2,1% af raforkuvinnslunni og dreifitöp um 0,9%. Eigin notkun í virkjunum var síðan um 2,2% af vinnslunni og samtals voru þessir þrír þættir því 5,3% af raforkuvinnslunni.

Að raforkuhópi orkuspárnefnd standa Landsnet, Orkustofnun, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik og Samorka.

Nánari upplýsingar um raforkuspá veitir Íris Baldursdóttir hjá Landsneti, formaður raforkuhópsins, sími: 563 9300.