Fréttir


Orkuflæði jarðhita

10.1.2011

Orkuflæði jarðhita á Íslandi hefur verið metið fyrir árið 2008 og er sett fram á flæðimynd í nýútkominni skýrslu Orkustofnunar um jarðhitanotkun til raforkuvinnslu og beinna nota til ársins 2009.  Höfundar eru Ingimar Guðni Haraldsson og Jónas Ketilsson.  Í skýrslunni er gerð grein fyrir jarðhitanotkun til raforkuvinnslu og beinna nota frá 1990 til 2009.

Á jaðri myndarinnar koma fram nettó heildartölur. Þannig nam frumorkunotkun (frumorkuvinnsla að frádreginni niðurdælingu) 144,2 PJ, notorka (sú orka sem verður eftir hjá neytendum) 39,1 PJ og ónýttur varmi og töp (frumorkunotkun að frádreginni notorku) 105,1 PJ.

Liðurinn ónýttur varmi og töp er nokkuð stór í samanburði við vinnslu, en vegna lágs vermis eru gæði orkunnar mjög skert og takmörk fyrir því að hve miklu leyti er hægt að bæta nýtingu. Þar sem íðorka[1] er mun betri mælikvarði á nýtingarmöguleika jarðvarmans en frumorka er æskilegt að sambærileg mynd sé dregin upp af íðorkuflæði, en á slíkri mynd verður straumur ónýttrar íðorku hlutfallslega minni en straumur ónýttrar frumorku í samanburði við vinnslustrauma.

Frumorkuvinnsla á háhitasvæðum nam 121,7 PJ og fóru 121,1 PJ til jarðvarmavirkjana. Þar af var 14,5 PJ umbreytt í raforku og 11,9 PJ veitt til hitaveitna, en 6,6 PJ var dælt aftur niður í jarðhitakerfin.  Hveragerði telst til háhitasvæða og er áætluð vinnsla þar um 0,6 PJ.

Heildarvinnsla á lághitasvæðum nam 29,2 PJ. Þar af var vinnsla sérleyfisveitna 24,7 PJ, en vinnsla einkaveitna er talin hafa numið um 4,5 PJ.

Ónýttur varmi og töp í flutnings- og dreifikerfum hitaveitna eru talin hafa numið 7,4 PJ. Frumorka hitaveituvatns sem skilaði sér til neytenda nam því 34,2 PJ, en ónýtt frumorka bakrásarvatns nam 9,0 PJ. Frumorka bakrásarvatns til niðurdælingar var innan við 0,1 PJ. Töp rafveitna á raforku jarðvarmavirkjana eru talin hafa numið 0,5 PJ og því skiluðu 14,0 PJ sér til neytenda.

orkuflaedi-jardhita-2008

[1] Íðorka (e. exergy) jarðvarma er sú hámarksvinna sem vökvinn fær framkvæmt við kælingu niður í 15°C við andrúmsloftsþrýsting (1 bara).Skýrsluna má nálgast hér.