Fréttir


Jarðhitaskólinn með námskeið í Kenýa

30.11.2005

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hélt 14.-18. nóvember sl. námskeið í Kenýa fyrir yfirmenn raforkufyrirtækja, jarðfræðistofnana og orkuráðuneyta frá fimm löndum Austur Afríku þar sem aðstæður eru taldar hvað bestar til að virkja jarðhita til rafmagnsframleiðslu og annarra nota.

Löndin eru að stofna til samvinnu um rannsóknir og nýtingu jarðhita í sigdalnum mikla í Austur Afríku (African Rift Geothermal Facility, ARGeo). Námskeiðið var haldið af Jarðhitaskólanum og Landsvirkjun Kenýa (Kenya Electricity Generating Company) í samvinnu við Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem er með aðalstöðvar í Naíróbí. Um 12% raforku í Kenýa er framleidd í jarðgufuvirkjunum í Olkaria, en sú starfsemi hófst 1981. Þar eru að auki 50 hektara gróðurhús sem ræktuð eru blóm (aðallega rósir) fyrir Evrópumarkað og nýta jarðhita til að stýra rakastigi, og gas úr jarðgufunni til að auka vöxtinn.

Markmið námskeiðsins var að fræða yfirmenn raforkufyrirtækja og jarðfræðistofnana um skipulag við rannsóknir og virkjun jarðhitans svo og fjármögnun framkvæmda. Greint var frá reynslu Filippseyinga, Íslendinga og Kenýabúa við jarðhitaleit og virkjanir. Sérstaklega var fjallað um hvaða upplýsingar þurfa að liggja fyrir til að alþjóðlegar lánastofnanir veiti lán og styrki til rannsókna og virkjunar jarðhita. Þátttakendur komu frá Erítreu, Eþíópíu, Kenýa, Tansaníu og Úganda. Fulltrúar landanna sögðu frá jarðhitastarfseminni heima fyrir og þeim virkjunarhugmyndum sem hvert land leggur áherslu á að komi til framkvæmda á næstu árum.  Aðalfyrirlesarar voru frá Eþíópíu, Filipseyjum, Íslandi og Kenýa. Meðal fyrirlesara voru átta fyrrum nemendur Jarðhitaskólans. Íslensku fyrirlesararnir voru Sverrir Þórhallsson, verkfræðingur, eðlisfræðingarnir Benedikt Steingrímsson og Knútur Árnason (allir starfsmenn ÍSOR og kennarar við Jarðhitaskólann), og Ingvar Birgir Friðleifsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Jarðhitaskólans.

Meðal þáttakenda voru ráðuneytisstjóri orkumálaráðuneytis Kenýa, forstjórar landsvirkjana Kenýa og Eþíópíu, forstjórar jarðfræðistofnana Erítreu, Eþíópíu og Úganda, og yfirmenn úr orku-  og námumálaráðuneytum Erítreu,Tansaníu og Úganda. Einnig voru embættismenn úr fjármálaráðuneytum Eþíópíu og Kenýa. Eitt af markmiðum námskeiðsins var að gefa forsvarsmönnum orkumála í löndunum tækifæri til að kynnast persónulega þannig að samstarf landanna muni aukast. Meðal umræðuefna var samnýting tækjabúnaðar og sérfræðiþekkingar í Austur Afríku við að virkja þessa mikilvægu orkulind sem víða er að finna í sigdalnum mikla.
 
Þetta er hið fyrsta árlegra námskeiða sem Jarðhitaskólinn mun standa fyrir í Austur Afríku. Íslensk stjórnvöld kynntu á ráðstefnu í Bonn 2004 að framlag Íslands til þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda yrðu árleg jarðhitanámskeið í Austur Afríku sem hæfust 2005, árleg námskeið í Mið-Ameríku sem hefjast 2006 og í Asíu sem hefjast 2007. Fyrirlesarar á námskeiðunum verða jarðhitasérfræðingar frá Íslandi sem kenna við Jarðhitaskólann og fyrrum nemendur Jarðhitaskólans í hinum ýmsu heimsálfum. Alls hefur Jarðhitaskólinn útskrifað 338 nemendur frá 39 löndum, þar af 88 nemendur frá 10 Afríkulöndum. Margir þeirra eru í forystu í rannsóknum og nýtingu jarðhita í sínum heimlöndum.


frett_30112005_1
Þátttakendur í námskeiðinu voru frá Erítreu, Eþíópíu, Filipseyjum, Íslandi, Kenýa, Tansaníu og Úganda (Ljósm. Sverrir Þórhallsson).

frett_30112005_2
Meðal fyrirlesara á námskeiðinuvoru níu fyrrum nemendur Jarðhitaskólans, frá Eþíópíu, Kenýa og Úganda.  Hér eu þeir ásamt íslensku fyrirlesurunum.  Þeir eru Sverrir Þórhallsson, verkfræðingur, eðlisfræðingarnir Benedikt Steingrímsson og Knútur Árnason (allir starfsmenn ÍSOR og kennarar við Jarðhitaskólann), og Ingvar Birgir Friðleifsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Jarðhitaskólans.