Fréttir


Ný bók um hagnýtar rannsóknir á Íslandi

21.12.2005

Hinn 29. apríl árið 2004 undirrituðu forstjórar rannsóknastofnana atvinnulífsins samning um að standa sameiginlega að útgáfu bókar um sögu rannsókna stofnananna. Kveikjan að hugmyndinni var að í ár eru  40 ár frá því stofnanirnar, eða forverar þeirra, voru stofnaðar.
frett_21122005

Bókin er nú komin út og í henni er að finna ítarlega umfjöllun um stofnanirnar sem eru auk Orkustofnunar, Hafrannsóknastofnunin, Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins,  Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Stofnanirnar ákváðu hver fyrir sig efnistök og umfjöllun sinnar stofnunar og nokkuð misjafnt er hvernig tekið var á því. Í umfjöllun Orkustofnunar eru sex kaflar sem fjalla um ákveðin afmörkuð verkefni.

Hákon Aðalsteinsson segir frá virkjun jökulánna og upphaf vatnsorkurannsókna, Árni Ragnarsson skrifar um hvernig jarðhitinn tók yfir hlutverki olíu til húshitunar og Valgarður Stefánsson fjallar um upphaf raforkuvinnslu til jarðhita og þá sérstaklega um Kröfluævintýrið svokallaða. Kristján Sæmundsson segir frá upphafi jarðfræðikortlagningar, Steinar Þór Guðlaugsson og Sveinbjörn Björnsson fjalla um hafsbotnsrannsóknir og Ingvar Birgir Friðleifsson rekur sögu Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Vilhjálmur Lúðvíksson, fyrrverandi forstöðumaður Rannsóknaráðs ríkisins, ritar inngangskafla bókarinnar þar sem hann rekur sögu rannsókna í landinu og setur þær í sögulegt samhengi.

Það er Verkfræðingafélag Íslands sem gefur bókina út og er hún þriðja bindið í ritröð félagsins um sögu verkfræði og tækniþekkingar á Íslandi.