Jólaerindi orkumálastjóra
Í morgun flutti Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, hið árlega jólaerindi í Orkugarði. Eins og vanalega er erindið birt hér á vef Orkustofnunar.
Ágæta samstarfsfólk og góðir gestir.
Nú er árið 2010 að renna sitt skeið á enda. Það er eins og það sé ekki sérstaklega langt síðan við fórum inn í nýja öld. Á síðustu öld var jafnan talað af virðingu um aldamótakynslóðina eins og hún hefði skipt sköpum í þróun þjóðfélagsins í átt til sjálfstæðis, lýðræðislegra stjórnarhátta og athafna sem mörkuðu leiðina til betri lífskjara. Það er sennilega alltaf of snemmt að spá fyrir um dóm sögunnar en einhvern veginn er eins og það sé erfitt að ímynda sér að þeir, sem tóku forystuna og flugið nú í upphafi nýrrar aldar, fái svipuð eftirmæli. Íslenska stjórnkerfið seiglast við að ráða fram úr þeim vandamálum sem sköpuðust við hrun efnahagslífsins í lok árs 2008. Við erum búin að ganga í gegnum tvö niðurskurðarár með minnkandi umsvifum og nú stefnir í áframhaldandi niðurskurð þriðja árið í röð. Það kemur annars vegar fram í því að svigrúm okkar til þess að ráða nýja starfsmenn í stað þeirra sem láta af störfum er afar takmarkað og hinsvegar að þegar sérstökum áföngum eins og Rammaáætlun lýkur þá koma ekki ný verkefni í staðinn heldur minnka framlög ríkisins til rannsókna- og þróunarvinnu í orkumálum stórkostlega frá ári til árs.
Í ljósi sögunnar er þó ótvírætt að velmegun okkar byggir að miklum hluta á framsýni forvera okkar í rannsóknum og nýtingu á orkulindunum. Uppbygging hitaveitna, jafnt í þéttbýli sem í dreifðari byggðum, vatnsaflsvirkjanir og langt og krefjandi þróunarstarf við virkjun háhita til raforkuframleiðslu eru allt dæmi um fjárfestingar, sem á sínum tíma voru áhættusamar og erfiðar en hafa til framtíðar lagt grunninn að lægsta raforkuverði og orkuverði til hitunar sem þekkist í okkar heimshluta. Við eigum líka ný sóknarfæri á sviði orkumála. Við þurfum að klára köldu svæðin, bora eftir jarðhita þar sem hann er að finna og síðan vinna að því að skapa varanlegar lausnir á þeim svæðum sem út af standa, með betri einangrun og glerskiptum, varmaendurvinnslu og varmadælum og öðrum aðferðum sem koma orkukostnaði þessara notenda á sama stig og þeirra sem njóta jarðhitans án þess að sérstakar niðurgreiðslur þurfi að koma til. Við getum bætt nýtni þeirrar jarðvarmavinnslu sem fyrir er í landinu með lágþrýstum tvívökvavélum sem nýta orkuna betur og við þurfum að efla rannsóknir til þess að tryggja skynsamlega vinnslu og viðhald jarðhitasvæða t.d. með aukinni niðurdælingu affallsvökva. Ennþá hafa vatnsaflið og jarðhitinn töluverða yfirburði í hagkvæmni umfram aðrar þekktar framleiðsluaðferðir en á síðustu árum höfum við séð að t.d. kostnaður við rafmagnsframleiðslu með vindorku hefur lækkað með nákvæmari hönnun, hærri möstrum og auknu þvermáli loftskrúfunnar.
Með myndun samstarfsklasa þeirra sem stunda rannsóknir á sviði jarðhitakerfa og jarðhitanýtingar, GEORG, var stigið ákaflega mikilvægt skref til þess að efla rannsóknir og þróunarstarf á þessu sviði og gera það markvissara, sem og að tryggja ákveðna grunnfjármögnun til starfsins. Þetta hefur að miklu leyti tekist vel og skapað okkur alveg nýja stöðu í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi. Innan IPGT samstarfsins, þar sem auk Íslands, einnig starfa Bandaríkin, Ástralía og Sviss, gegni ég nú formennsku. Í starfi IPGT felst m.a. að gera sameiginlega greiningu á þeim þáttum jarðhitanýtingar þar sem tækifæri eru til að ná betri árangri og meiri hagkvæmni. Við erum einnig virk innan IEA-GIA, IGA, IHA, EDIN, WEC og norræns rannsóknasamstarfs auk þess sem Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hefur leiðandi stöðu á sviði menntunar og þjálfunar á heimsvísu. Alþjóðlega jarðhitaráðstefnan á Balí í maí sýndi mikinn styrk íslenskra jarðhitarannsókna á alþjóðlegan mælikvarða og sérstaklega var ánægjulegt að sjá hve fyrrverandi nemendur jarðhitaskólans voru áberandi meðal þeirra sem þar áttu vísindagreinar.
Íslenskir sérfræðingar eru nú virkir í mörgum erlendum verkefnum á sviði jarðhita enda er það okkur brýn nauðsyn að hafa aðkomu að stærra markaðssvæði en því íslenska, ekki aðeins vegna þess að það skapar störf og gjaldeyristekjur, heldur einnig til þess að viðhalda þekkingu og þjálfun sérfræðinga okkar þegar sveiflur verða í íslenskum orkuiðnaði.
Eins er það svo að áhugi erlendra ráðamanna á orkumálum á Íslandi er mikill, eins og ég hef greinilega orðið var við, þar sem ég hef fylgt íslenskum ráðamönnum á fundum erlendis og í opinberum heimsóknum. Árangur Íslendinga í orkumálum er einfaldlega aðgöngumiði að ráðamönnum erlendra ríkja og nýtist til þess að opna og greiða fyrir samskiptum á öðrum sviðum.
Nú eru uppi hugmyndir um að auka samkeppnishæfni og styrk greinarinnar við markaðsöflun erlendis með því að mynda samstarfsklasa og þar með auka verulega samstarf og samhæfingu mismunandi aðila á sviði orkumála á Íslandi. Það er mikilvægt að þetta starf sé unnið á forsendum þeirra fyrirtækja sem þegar eru á komin inn á sviðið. Fyrir okkur sem störfum að almennri kynningu íslenskra orkumála á alþjóðlegum vettvangi gæti samstarf sem þetta verið mjög til framdráttar.
Djúpborunarverkefnið er eitt af þeim stóru verkefnum sem ráðist var í þegar fjárráð ríkisins voru mun betri en nú er. Það verður að teljast áfall að sú hola sem hafði verið undirbúin við Kröflu skyldi enda með þeim hætti sem hún gerði þegar borinn, að því fullvíst er talið, lenti í bráðinni kviku á rúmlega 2000 metra dýpi. Það má hins vegar ekki horfa framhjá því að holan virðist vera ein sú gjöfulasta á landinu og slagar reyndar hátt í þær vonir sem menn gerðu sér um afl frá djúpborunarholu. Á sama tíma standa vonir til að efnafræðin verði auðveldari en frá holu sem er á 4 - 5 km dýpi og við hærra hitastig og þrýsting og því verði hægt að nýta slíkar holur með auðveldari hætti. Það er hins vegar mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut því hagsmunir okkar eru gífurlegir ef árangur næst. Þekking okkar á hinum dýpri hlutum jarðhitakerfana er okkur mikilvæg til þess að skilja eðli og möguleika grynnri jarðhitakerfa.
Eitt af því vandasamasta í okkar starfi er að setja fram og nýta hugtök á rökrænan hátt þannig að merkingin sé skýr og í samræmi við fræðilegan grundvöll þeirra.
Varmafræðin byggir á tveimur grundvallarlögmálum. Fyrra lögmálið segir okkur að orku er ekki hægt að framleiða eða eyða. Þeir sem mótuðu hugtökin á íslensku voru meðvitaðir um þetta því þeir töluðu um orkuvinnslu en ekki orkuframleiðslu og orkunotkun en ekki orkueyðslu. Hins vegar þegar við þýðum texta okkar yfir á ensku hættir okkur til þess að nota hugtökin "energy production" og "energy consumption" í stað "energy conversion" og "energy use" sem eru hin réttu hugtök.
Seinna lögmálið segir okkur að fyrir hvert vinnslustig orkunnar þ.e. þegar hún fer í gegnum einhvers konar umbreytingarferli minnka gæði hennar. Gæði orkunnar eru þá fólgin í hæfni hennar til þess að skila vinnu og þessi hæfileiki er mjög breytilegur eftir formi og ástandi orkunnar. Þannig eru gæði staðorku bundinni í uppistöðulóni sem og raforku nánast 100 %, við 250ºC eru gæði vatnsgufu um 40 % og vatns í vökvafasa um 30 % og við 80ºC eru gæðin um 12 % miðað við umverfishita við frostmark. Sem neytendur í Reykjavik greiðum við líka 4-5 sinnum hærra verð fyrir kílówattstundina af rafmagni en fyrir sama orkumagn í hitaveitunni.
Þegar því er haldið fram, að það eigi ekki að nýta háhitann til raforkuframleiðslu því að orkunýtnin sé svo léleg, eru menn að leggja að jöfnu eina kílówattstund í rafmagni og eina kílówattstund í hitaveituvatni. Þetta heitir á mannamáli að bera saman epli og banana. Það er á skjön við annað lögmál varmafræðinnar, og útskýrir líka fyrir okkur hvers vegna erlend stórfyrirtæki sækjast eftir að fjárfesta hér á landi, til þess að nýta raforku en hins vegar hefur verið mun erfiðara að draga að fjárfestingarkosti, sem nýta varmaorkuna, þótt hún fáist mun ódýrari á orkueiningu.
Við höfum nú í okkar starfi innleitt hugtakið íðorku (eng. exergy) en það er einfaldlega sú hámarks vinna sem hægt er að framkvæma með ákveðnu orkumagni. Þetta hugtak gefur því mynd af verðmæti eða gæðum orkunnar og getur því vonandi orðið til þess að skapa annan og réttari skilning á virkni og nýtni orkuvinnslunnar. Í dæmigerðu raforkuveri sem nýtir jarðhita er frumorkunýtnin 13 % en íðorkunýtnin er rúmlega 50 % sem óneitanlega gefur aðra mynd af því hvernig farið er með verðmæti.
Annað hugtak sem getur valdið okkur talsverðum heilabrotum eru sjálfbær (eng. sustainable) og sjálfbær þróun (eng. sustainable development). Það þarf ekki að orðlengja það að hér eru á ferðinni hugtök sem allir vilja hafa í hávegum. Megininntak sjálfbærni samkvæmt viðteknum skilgreiningum er að við umgöngumst jörðina og vistkerfi hennar með þeim hætti að hún haldi áfram að skapa ókomnum kynslóðum möguleika til lífs og athafna með sömu gæðum og við sjálf njótum. Um þetta geta flestir verið sammála en þegar kemur að útfærslunni skilja leiðir og túlkun manna verður jafn fjölbreytileg og þeir eru margir. Sumir líta á sjálfbærni sem kerfislægt hugtak, þar sem sjálfbærni sem slík er ekki skilgreind nema fyrir þróun þjóðfélags og umhverfis í heild sinni. Aðrir vilja færa sjálfbærnihugtakið niður á einstaka þætti gangvirkis samfélagsins og úrskurða einungis það sem hefur eiginleika eilífðarvélarinnar sem sjálfbært.
Gölturinn Sæhrímnir sem matreiddur er dag hvern í Valhöll en rís síðan vel haldinn og spikaður upp að morgni er dæmi um sjálfbært ferli af þessari tegund. Hins vegar verður því miður að segjast að mest allt sem við mannfólkið hérna megin Bifrastar tökum okkur fyrir hendur uppfyllir ekki þessa skilgreiningu. Annar vandi er að orðið sjálfbærni er orðið jafnmikið tískuhugtak og orðið fjarrænn var á tímum meistara Þórbergs þegar hann fann sig knúinn til þess að skrifa í ritgerðinni "Einum kennt - öðrum bent" um fjarrænu pissudúkkuna, en pissudúkkan var á þeim tímum einnig að ryðja sér braut til almennra vinsælda. Það eru ekki mörg lagafrumvörp sem eru skrifuð án þess að skýlaus krafa sé gerð um að allt sé gert með sjálfbærum hætti en hins vegar vantar okkur enn hæstaréttardóma sem sýna hvernig tekið verður á brotum á þessum ákvæðum. Sjálfbærnihugtakið er okkur alltof mikilvægt til þess að við getum látið það þynnast út í einhvers konar tískuorðaflaumi. Það má etv. segja um sjálfbærnina eins og pólstjörnuna: Við setjum kúrsinn eftir henni þótt við gerum okkur ekki beinlínis vonir um að komast þangað.
Tökum raforkuframleiðslu sem dæmi um sjálfbærniumræðu, sem komin er í ógöngur. Við framleiðum nú 5 sinnum meira rafmagn en við þurfum til þess að reka venjulegt þjóðfélag án stóriðju. Raforkuframleiðsla úr vatnsafli er um þrisvar sinnum meiri en við þyrftum ef hér væri ekki stóriðja. Ef við gefum okkur að hana megi tvöfalda þá eigum við sexfalt afl miðað við núverandi þörf. Höfum í huga að orkusölusamningar til stóriðju eru til takmarkaðs tíma og munu ekki geta keppt í verði við raforkunotkun till almennra nota. Orkunotkun okkar utan stóriðju eykst um 1,5 % á ári og því má segja að raforka til almennra nota sé tryggð til 120 ára. Ef við nú gerum ráð fyrir að sambærilegt magn orku megi vinna úr jarðhita þá er forðinn tólffaldur og og dugir okkur til 170 ára. Þá eru ekki taldir möguleikar okkar í framtíðinni með nýrri tækni til þess að vinna orku úr vindi, sjávarföllum, við seltuskil og jafvel úr sólarorku og möguleikar okkar til þess að vinna jarðhitorku dýpra og þar sem hún nú er ekki talin aðgengileg. Hér má líka bæta við að orkuvinnsla okkar er ekki að valda umtalsverðri mengun.
Þrátt fyrir þetta eru áhyggjur manna af skorti á sjálfbærni á Íslandi fyrst og fremst á sviði orkumála og af yfirvofandi orkuskorti. Hinar réttmætu áhyggjur ættu fyrst og fremst að beinast að þeim náttúru- og landgæðum og menningarminjum, sem glatast ef óvarlega er farið við skipulagningu og framkvæmdir. Þess vegna er það starf sem unnið hefur verið innan Rammaáætlunar mikilvægt skref til þess að á kerfisbundinn og heilstæðan hátt megi meta og flokka mismunandi virkjunarkosti í þeim tilgangi að ákveða hvaða kosti má taka til virkjunar og hvaða hugsanlega virkjanakosti og svæði tengt þeim þarf að friða til þess að vernda lífríkið og tryggja komandi kynslóðum, og þeim sem sækja okkur heim, aðgang að óspilltum náttúrusvæðum. Það er mikilvægt að yfirstandandi áfanga þess starfs ljúki sem fyrst og týnist ekki í moldviðri aukaatriða eins og oft vill verða þegar menn seilast langt um hurð í umræðunni til þess að reyna að styrkja málstað sinn.
Það má segja að það hafi verið stund milli stríða i olíuleitarmálum. Eftir að síðasta útboði lauk og þeir aðilar sem buðu í leyfin drógu sig til baka hófst tími mikillar rannsóknarvinnu til þess að kanna afstöðu olíufyrirtækjanna og til þess að efla verulega tengsl okkar við fyrirtæki á sviði olíuvinnslu og þá sérstaklega þær deildir sem stunda frumkannanir á nýjum svæðum. Söfnun og úrvinnsla botnsýna á Drekasvæðinu var efst á óskalista þessara aðila og var slík rannsókn framkvæmd með skipi Hafrannsóknarstofnunar í samvinnu við Norðmenn fyrr á þessu ári. Einnig hafa farið fram mjög gagnlegar viðræður við Norðmenn um útboðsskilmála og skattatæknileg atriði. Fjármálaráðuneytið vinnur að yfirferð á lögum um skattlagningu.
Það olli mörgum ugg þegar olíulekinn varð á Mexíkóflóa og framtíð olíuleitar á miklu hafsdýpi varð skyndilega óviss. Við höfum fylgst með þróun mála og sérstaklega tekið mið af viðbrögðum og ályktunum Norðmanna. Rannsókn þessa atburðar er ekki að fullu lokið en ljóst er að þetta mun hafa áhrif á áhættumat og öryggiskröfur fyrir olíuborun á hafsbotni. Olíuvinnsla í Norðurhöfum og miklir flutningar á jarðefnaeldsneyti skapa hættur fyrir okkur sem við verðum að vera meðvituð um og tilbúin að mæta . Þar breytir hins vegar ekki miklu hvort Íslendingar stunda vinnslu á Jan Mayen svæðinu eða ekki. Okkar ríkustu hagsmunir liggja í að tryggja að öryggiskröfur og viðbúnaður á öllu svæðinu séu fullnægjandi, að þétt samstarf sé með þeim þjóðum sem hafa hagsmuna að gæta og að fullkomnir öryggisstaðlar gildi fyrir allt svæðið.
Okkur hættir gjarnan til að meta framtíðina út frá viðmiðum líðandi stundar. Sagan kennir okkar að meiriháttar tæknibreytingar og viðhorfsbreytingar valda með vissu millibili miklum straumhvörfum sem erfitt, ef ekki ómögulegt er að sjá fyrir. Dr. Ágúst Valfells verkfræðingur sagði mér um daginn frá því að þegar hann var að ljúka doktorsprófi í kjarnorkuverkfræði í Bandaríkjunum í upphafi sjöunda áratugarins, var þar samferða honum ungur meistaraprófsnemi sem var að finna nýjar leiðir til þess að koma fyrir kjarnorkuúrgangi. Hans lausn var einfaldlega sú að pakka því í nokkurs konar geislaheld hylki og setja út í hús og nýta varmann frá áframhaldandi kjarnaklofnun sem þá dygði til þess að sjá meðalstóru einbýlishúsi fyrir hita og rafmagni. Ég held að engum dytti í hug að leggja til slíkar lausnir á okkar tímum.
Annars finnst mér starfsemin hafa verið í góðum farvegi á árinu. Sú grunnvinna sem við höfum lagt í leyfisveitingar og sú reynsla sem við höfum öðlast gerir að verkum að umfjöllun kemst í traustan farveg og verður um margt léttari með hverju nýju verkefni. Við erum komin nokkuð á leið með að þróa aðferðir til þess að sinna eftirlitshlutverki okkar með útgefnum leyfum og það gæti orðið sérstakt markmið á næsta ári að þróa með okkur vinnureglur og skipulega eftirfylgni. Mikið starf hefur verið unnið við að koma skýrslum, skjölum og gögnum stofnunarinnar á aðgengilegt form. Með þróun leitarvéla og með sérstökum vefsjám er síðan aðgengið að þesum gögnum tryggt gagnvart þeim sem eru utan stofnunarinnar. Á næsta ári munum við, í samvinnu við granna okkar hér í Orkugarði, gera breytingar á því samrekstrarformi sem hér hefur verið . Það er annars vegar áframhalda af þeim aðskilnaði stofnana sem við höfum markvisst unnið að en hins vegar teljum við að þær geti leitt til nokkurs sparnaðar í rekstri, sérstaklega til lengri tíma litið.
Í maí á þessu ári var opnaður nýr íslenskur sem og enskur vefur Orkustofnunar með fersku útliti og bættu skipulagi. Vefirnir innihalda báðir mjög mikið af allskyns efni um orkumál Íslands sem og starfsemi Orkustofnunar. Með þessu var sérstaklega brugðist við þörf og óskum um aðgengilegt efni á ensku um orkumál Íslands. Enski vefurinn hefur víða vakið athygli og fengið jákvæð viðbrögð. Þar er að finna mun betra og nákvæmara efni en áður. Vefurinn auðveldar mjög upplýsingamiðlun til erlendra aðila um íslensk orkumál og sparar þarafleiðandi tíma og vinnu sem áður fór í að svara fyrirspurnum.
Ágætu starfsmenn og aðrir gestir
Ég óska ykkur þess að þið fáið notið jóla- og nýárshelgarinnar með fjölskyldum ykkar. Svo kemur nýtt ár með nýjum verkefnum. Sum eru auðveld en önnur meira snúin en ég held að þið getið verið sammála mér um að það eru forréttindi að fá tækifæri til þess að vinna að verkefnum sem tengjast náttúru, sögu og flestum þáttum þjóðfélagsins og eru afgerandi um afkomu og velferð íslensku þjóðarinnar um langa framtíð.