Borun að Hala í Suðursveit lofar góðu
Á nýju ári var borun fram haldið og á hádegi sl. laugardag, 7. janúar, náði holan 629 m dýpi. Lítið varð vart við vatnsæðar í borun, en bormenn töldu þó hugsanlegt að skolvatn hefði tapast við sprungur í 550 m og 570 m dýpi. Við loftdælingu úr holunni við lok borunar kom í ljós að vatnið hafði hitnað nokkuð og við loftdælingu í 300 m dýpi fengust um 4 l/s af 53°C heitu vatni. Lítilli dælu hefur verið komið fyrir í holunni og eftir um eins dags dælingu á um 0,9 l/s er hiti vatnsins kominn í 56°C.
Holan hefur enn ekki verið hitamæld en Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur á Jarðfræðistofunni Stapa, sem hefur umsjón með verkefninu að Hala, telur líklegt að hitinn á æðunum í 550 m og 570 m dýpi sé nærri 90°C. Enn fremur telur hann ólíklegt að aðaluppstreymisrásin hafi enn verið skorin því hitastigulsfrávikið við Hala er víðfeðmt. Í malarkambi, sem liggur á 20-30 m dýpi við fjallsræturnar að Hala, fæst mikið af 16-17°C heitu vatni sem nýtt er til fiskeldis.
Á Hala ættu því að vera góðar líkur á að ná talsverðu magni af yfir 80°C heitu vatni verði boruð þar víðari og dýpri vinnsluhola. Tæpast verður þó ráðist í slíka borun nema til komi atvinnurekstur sem staðið gæti undir þeirri fjárfestingu. Árangurinn á Hala ætti þó að vera hvati til að kanna önnur svæði í dreifbýlinu í Austur-Skaftafellssýslu enn frekar en vísbendingar eru um jarðhitasvæði við Hrollaugsstaði í Suðursveit, Rauðaberg á Mýrum, og Skaftafell og Svínafell í Öræfum, auk þess sem verið er að kanna jarðhitasvæði við Hoffell í Nesjum fyrir hitaveitu fyrir Hornafjörð.
Það eru hjónin Fjölnir Torfason og Þorbjörg Arnórsdóttir sem standa fyrir jarðhitarannsóknunum. Borinn Hrímnir, sem er í eigu Jarðborana hf, hefur borað flestar holurnar á svæðinu, en borinn Glámur í eigu Ræktunarsambands Flóa og Skeiða var notaður við dýpkun holu HA-14 úr 480 m í 629 m dýpi. Þetta er jafnframt það dýpsta sem sá bor hefur hingað til borað.