Fréttir


Jarðhitaleitarátak á Djúpavogi

10.1.2006

Þær vísbendingar sem þegar liggja fyrir eru jákvæðar og í næsta áfanga er því áætlað að halda áfram með þessa holu og bora niður á allt að 600 metra dýpi.  Þetta er svipuð aðferðafræði og beitt hefur verið annarsstaðar á Austurlandi m.a. á Eskifirði. Þar hefur verið leitast við að sjá í “ódýrum” rannsóknarholum hvort til staðar er nýtanlegt vatn til hitaveitu áður en lagt er í boranir sem kostað geta tugi milljóna.

Jarðhitaleit skapar miklar væntingar um bættan hag íbúanna á þeim stöðum þar sem leitað er og krefst leitin að sjálfsögðu mikillar þekkingar og reynslu bæði þeirra sem framkvæma sjálfa borunina og ekki síður þeirra jarðvísindamanna sem að verkinu koma.
 
Við vandasöm verk er einnig slegið á létta strengi eins og fram kemur í vísunni sem hér fylgir.  Hún varð þannig til að Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur, sem er umsjónarmaður verkefnisins á Djúpavogi, sendi Birni Hafþóri Guðmundssyni sveitarstjóra á Djúpavogi fyrripartinn og fékk botninn til baka.

Djúpt í jörðu á Djúpavogi
dýrðarvökva hyggjumst ná.
Heita vatnsins breiður bogi
bætir hag og rekstur þá.