Fréttir


Ný heimarafstöð í Varmahlíð undir Vestur-Eyjafjöllum

19.1.2006

Fjölmenni var í Varmahlíð laugardaginn 14. janúar 2006 þegar formlega var vígð ný rafstöð sem heitir því skemmtilega nafni Gullkvörn.

Bæjarlækurinn er aflgjafinn. Hann hefur áður unnið fyrir ábúendur. Á árum áður var vatnsmylla og lítil rafstöð í Varmahlíð. Í vatnsmyllunni var malað korn í brauð. Í gamla daga komu margir í Varmahlíð þeirra erinda að fá malað korn.

Ábúendur og eigendur í Varmahlíð eru hjónin Sigurður Jakob Jónsson vélvirki og Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður í Vík í Mýrdal. Forfeður Sigurðar hafa lengi búið í Varmahlíð.

Vatnshverfill (túrbína) og rafali eru ný, framleidd árið 2005 á Ítalíu. Ástimplað afl er 30 kW. Viðmiðunarfallhæð er 75 metrar og vatnsmagn 55 lítrar á sekúndu. Öxullinn er lóðréttur. Notað er sama inntak nú og var í gömlu rafstöðinni.

frett_19012006_1
Nýja rafstöðin, Gullkvörn, við Varmahlíð.

frett_19012006_2
Varmahlíð undir Vestur-Eyjafjöllum