Fréttir


Mikil aukning jarðvarmanotkunar á síðustu árum og bætt nýtingarhlutfall til raforkuvinnslu

24.11.2010

Jarðvarmanotkun hefur aukist mikið á síðustu árum með tilkomu nýrra jarðvarmavirkjana, en jafnframt hefur nýtingarhlutfall frumorku til raforkuvinnslu aukist talsvert.

frumorkunotkun_skyrsla_2010

Árið 2008 nam heildarfrumorkunotkun jarðvarma 144,2 PJ. Þar af nam notkun jarðvarmavirkjana 114,5 PJ og notkun sérleyfisveitna á lághitasvæðum 25,2 PJ. Frumorkunotkun jarðvarmavirkjana jókst um 237% á milli áranna 1998 og 2008, en á sama tíma jókst notkun sérleyfisveitna á lághitasvæðum um 21%.

Nýtingarhlutfall frumorkuvinnslu íslenskra jarðvarmavirkjana til raforkuframleiðslu hefur farið stigvaxandi í gegnum árin og var um 12% árið 2008, en til samanburðar var það um 7% árið 1998.  Helstu ástæður þessa er að leita í eftirfarandi þáttum:

1.    Í upphafi var heitavatnsframleiðsla markmið vinnslu í Svartsengi og á Nesjavöllum og því rataði umtalsverður hluti jarðhitavökva ekki inn í raforkuvinnsluferli. Með tímanum hefur hlutfall vökva sem nýttur er beint til raforkuvinnslu hinsvegar farið vaxandi og í dag er fyrst og fremst notast við afgangsvarma úr raforkuvinnsluferli blandaðra jarðvarmavirkjana við heitavatnsframleiðslu.

2.    Meðalvermi jarðhitavökva til raforkuvinnslu yfir landið hefur þokast upp á við á síðustu áratugum. Þannig nam meðalvermi vinnsluvökva 1150 kJ/kg árið 1970, en var komið upp í 1577 kJ/kg árið 2008. Búast má við betri nýtni raforkuvinnslu eftir því sem vermi jarðhitavökva er hærra.

3.    Umbreytingarnýtni í vinnsluferli nýrra virkjana hefur þokast upp á við. Tækjabúnaður hefur batnað að einhverju marki, en einnig hefur betri umgengni við vökvann skilað sínu. Með því að auka fjölda skilja og þrýstiþrepa verða töp minni og nýtni eykst.


Þetta kemur fram í ný útkominni skýrslu Orkustofnunar “Frumorkunotkun jarðvarmavirkjana og hitaveitna á Íslandi til ársins 2009”. 

Skýrslan í heild sinni.