Fréttir


Frumorkunotkun jarðvarmavirkjana og hitaveitna á Íslandi til ársins 2009.

23.11.2010

Orkustofnun hefur nú gefið út skýrsluna “Frumorkunotkun jarðvarmavirkjana og hitaveitna á Íslandi til ársins 2009”.

Höfundar eru Ingimar Guðni Haraldsson og Jónas Ketilsson. Frumorka jarðvarma er skilgreind og endurskoðaðri aðferðafræði við útreikning hennar beitt á vinnslugögn jarðvarmavirkjana aftur til 1970 og vinnslu hitaveitna eins og fyrirliggjandi gögn leyfa.

Breytt aðferðarfræði við mat á frumorkunotkun jarðvarmavirkjana og hitaveitna

Fyrri aðferðafræði miðaði frumorkunotkun við 10% nýtni í raforkuvinnsluferli jarðvarmavirkjana og við nýtingu hitaveituvatns niður að 15°C.  Frumorka jarðvarma er nú skilgreind sem sú orka sem losnar úr jarðhitavökva á leið hans úr upphafsástandi í viðmiðunarástand, sem er tekið sem 15°C og 1 bara.  Frumorkunotkun yfir tiltekið tímabil er frumorkuvinnsla að frádreginni frumorku jarðhitavökva sem dælt er niður í sama jarðhitageymi innan sama tímabils. Því er nú einungis um eina skilgreiningu að ræða sem er óháð notkun jarðvarmans.  Mat á frumorkunotkun kallar því eftirleiðis á haldgóðar upplýsingar um massavinnslu og vermi jarðhitavökva á háhitasvæðum jafnt sem lághitasvæðum.

Í ljósi þess að nýtingarhlutfall jarðvarmavirkjana á frumorku til raforkuvinnslu hefur aukist undanfarin ár hefur frumorka jarðvarma verið endurskoðuð aftur til ársins 2001 á grundvelli endurskoðaðrar skilgreiningar frumorku og hafa áður útgefnar tölur sem miðuðu við 10% nýtni því breyst lítillega.


Skýrslan í heild sinni.