Fréttir


Hlaup í Skaftá

25.4.2006

Föstudaginn 21. apríl hófst hlaup í Skaftá. Fyrst varð þess vart í Skaftártungu snemma á laugardagsmorgun. Hlaupið jókst mjög hratt og náði hámarki í byggð um og upp úr hádegi sunnudags. Síðan hefur dregið úr því jafnt og þétt.

Þetta hlaup sver sig í ætt Skaftárhlaupa sem vaxa bratt og tekur tiltölulega fljótt af. Þótt endanlegar tölur yfir hlaupið séu ekki komnar enn er ljóst að það jafnast á við þau stærstu sem þar hafa komið hingað til. Flóðvatnið sprengdi sér leið upp úr jöklinum nokkurn spöl frá sporðinum og merkir það að mikill þrýstingur hefur verið á vatninu. Austasta útfall hlaupsins eins og það var um kl. 15 á laugardaginn var nokkru austan við Skaftárfell og það vestasta á vatnasviði Tungnár. Vegalengdin þar á milli er nærri 10 km.

Hlaupinu fylgdi mikil jöklafýla (brennisteinsvetni) að venju. Fannst hún víða um land, m.a. á Norðurlandi en það er ekki einsdæmi. Áður hefur jöklafýlan meira að segja borist til Færeyja.

Upprunastaður Skaftárhlaupa er undir Vatnajökli norðvestur af Grímsvötnum. Þar eru tvö jarðhitasvæði sem bræða jökulinn án afláts en vatnið sleppur ekki burt vegna þess að þar er lægð í yfirborð jökulsins. Þessar lægðir eru kallaðar Skaftárkatlar. Allar líkur benda til þess að hlaupið hafi komið úr Skaftárkatli þeim eystri þótt það hafi ekki verið staðfest enn sem komið er. Að jafnaði hafa liðið rúm tvö ár milli hlaupa úr hvorum katli. Hlaup kom úr vestari katlinum síðastliðið sumar en eystri ketillinn var nú orðinn fullur og því búist við hlaupi hvenær sem var enda liðin tvö og hálft ár frá því að úr honum hljóp síðast.

Þetta er fertugasta og annað Skaftárhlaup síðan 1955 sem mælt er af Vatnmælingum Orkustofnunar en þá hættu hlaupin að fara inn í Langasjó og bárust ótafin út í Skaftá. (Sjá greinargerð SZ-2002/01 og skýrslu OS-2005/031.) Mikilsvert er að fylgjast með jökulhlaupum því að með þeim berst umtalsverður hluti af heildarrennsli fram og hlutfallslega enn stærri hluti af öllum þeim aur sem áin skilar.

frett_25042006_1
Skaftárhlaup apríl 2006

frett_25042006_2
Skaftárketill apríl 2006

frett_25042006_3
Skaftárketill apríl 2006

frett_25042006_4
Sprungur í Skaftárkatli apríl 2006

frett_25042006_5
Skaftárkatlar fyrir hlaup apríl 2006