Fréttir


Eurenew 2006 - Evrópuráðstefna um áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa, haldin 5. - 7. júní

2.6.2006

Vatnamælingar Orkustofnunar hafa frá árinu 2003 tekið þátt í stóru samnorrænu rannsóknarverkefni um áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa. Verkefnið nefnist Climate and Energy. Nú er verkefninu að ljúka og af því tilefni verður haldin ráðstefna á Hótel Nordica í Reykjavík dagana 5. - 7. júní þar sem niðurstöður verkefnisins verða kynntar.

Þátttakendur í verkefninu eru allir helstu sérfræðingar á þessu sviði á Norðurlöndum. Verkefnið hefur verið dyggilega styrkt af Norræna orkusjóðnum (Nordisk energiforskning) og einnig af aðilum í þátttökulöndunum, hér af iðnaðarráðuneytinu, Orkusjóði og Landsvirkjun.

Ráðstefnunni er ætlað að verða vettvangur vísindamanna annars vegar og talsmanna evrópska orkugeirans hins vegar, um áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa, svo sem vatnsorku, vindorku, sólarorku og framleiðslu lífefnaeldsneytis. Vísindamenn líta á upplýsingamiðlun til ráðamanna og fagfólks í orkugeiranum sem mikilvægan þátt á lokastigi rannsóknanna, en einnig vænta þeir þess að ráðstefna sem þessi geti komið á auknu samstarfi og kveikt hugmyndir að frekari verkefnum á þessu sviði.

Hlýnun loftslags getur haft margvísleg áhrif hér á landi. Til dæmis eru líkur á að jöklarnir bráðni hraðar á næstu árum og áratugum en þeir hafa áður gert. Það gæti haft þau áhrif að mikið vatn verður í jökulánum næstu áratugina en eftir því sem jöklar hopi dragi aftur úr þessu viðbótarvatnsmagni í jökulánum, auk þess sem árstíðarbreytingar í rennslinu verði með öðrum hætti en áður. Þess utan myndi úrkoma væntanlega aukast. Allt eru þetta mikilvægir þættir sem koma beint við orkuframleiðslu úr jökulánum.

Dagskrá ráðstefnunnar