Fréttir


Nýtt rannsóknarverkefni í Skaftárkötlum í Vatnajökli

1.7.2006

Nýlokið er á Vatnajökli fyrsta áfanga nýs rannsóknarverkefnis, sem miðar að ítarlegri könnun á Skaftárkötlum og umhverfi þeirra. 12 vísinda- og tæknimenn frá Vatnamælingum Orkustofnunar, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og bandarískum vísindastofnunum dvöldu dagana 7. - 15. júní í búðum við suðurjaðar Vestari Skaftárketils.

Stöðuvatnið undir katlinum hljóp síðast í júlílok 2005 og er nú smám saman að fyllast á ný vegna stöðugrar bráðnunar íss af völdum jarðhitasvæðis undir jöklinum. Greiðfært reyndist inn að miðju ketilsins og þar tókst að bora gegnum 300 m þykka íshelluna með nýjum bræðslubor Vatnamælinga. Ýmsar tafir urðu á borun vegna holrýma og gjóskulaga í íshellunni, auk þess sem bilanir ollu nokkrum vandræðum. Í fjórðu tilraun tókst að bora gegnum helluna á 17 klst. og mæla dýpt lónsins undir jöklinum, sem reyndist um 100 m. Hitaferill var einnig mældur og reyndist mestur hluti lónsins vera við rúmar 4°C.

Eitt sýni (400 ml) náðist frá botni lónsins með sýnataka, sem smíðaður var sérstaklega fyrir þetta verkefni, og fannst talsverður brennisteinsfnykur af sýninu er það var tæmt úr hólknum. Jarðefnafræðileg greining sýnisins er þegar hafin og er gert ráð fyrir því að niðurstöður muni auka þekkingu á eðli jarðhitakerfanna undir Skaftárkötlum. Þá er með eftirvæntingu beðið niðurstöðu örverufræðilegrar rannsóknar á vegum Umhverfisstofnunar og Prokaria, sem væntanlega mun leiða í ljós hvort örverur þrífast í vatninu undir 300 m þykkum jökli.

Að borun og sýnatöku lokinni var settur niður skynjari, sem nú skráir hita og þrýsting á klukkustundar fresti og sendir gögn um kapal til skráningartækis á yfirborði. Einnig var komið fyrir síritandi GPS tæki, sem skráir hækkun íshellunnar fram að næsta hlaupi úr katlinum. Gögnin um hita og vatnsborð í katlinum verða auk upplýsinga um jökulafkomu og ísskrið, sem aflað er með mælingum á safnsvæði ketilsins og innan hans, notuð til að setja upp líkan af vatnssöfnun í katlinum og jökulhlaupum úr honum.

Verkefni þetta er kostað af RANNÍS, NASA Astrobiology Institute, orkumálasviði Orkustofnunar, Landsvirkjun, Vegagerðinni, Vatnamælingum Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands. Jöklarannsóknafélag Íslands veitti mikilsverða aðstoð við flutninga á jökulinn.