Fréttir


Norræn ungmenni heimsækja Orkustofnun

17.7.2006

80 norræn ungmenni heimsóttu Orkustofnun á föstudaginn sl. og fræddust um orkumál á Íslandi. Kristinn Einarsson vatnafræðingur flutti erindi um orkumálin og svaraði síðan spurningum fróðleiksfúsra í kjölfarið. Eftir það var tímabært að setja áheyrendur í orkuhleðslu og gæddu þeir sér á flatbökum og gosdrykkjum. Ungmennin héldu síðan til bækistöðva sinna í Mosfellsbæ með vetnisknúnum strætisvögnum á vegum Íslenskrar NýOrku.

Ungmennin eru hér á vegum Nordisk Ungdomspanel í eina viku (Ungdomsugen 2006) og hefur Ungmennafélag Íslands annast hópinn og skipulagt fjölbreytilega og skemmtilega dagskrá. Þema vikunnar er Orka jarðar og hefur hópurinn ferðast vítt og breitt um landið til að kynna sér Ísland og sérstöðu landsins í orkumálum. Til skoðunar hafa verið meðal annars jöklar, hellar, hverir og háhitasvæði.

Meðfylgjandi myndir tók Ásdís Helga Bjarnadóttir, förunautur ungmennanna f.h. Norrænnar ungmennaviku og Ungmennafélags Íslands, og eru myndirnar birtar með góðfúslegu leyfi hennar.

frett_17072006_1
frett_17072006_2
frett_17072006_3