Samkomulag milli Íslands, Danmerkur/Færeyja og Noregs um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna í suðurhluta Síldarsmugunnar
Nýlega var undirritað samkomulag um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna milli Íslands, Færeyja, meginlands Noregs og Jan Mayen í suðurhluta Síldarsmugunnar.

Þetta samkomulag er fyrsti áfangi í vinnu utanríkisráðuneytisins að því að afla Íslendingum réttar til landgrunns utan 200 sjómílna í suðurhluta Síldarsmugunnar, á Reykjaneshrygg og á Hatton-Rockall svæðinu.
Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna geta strandríki fengið yfirráð yfir landgrunni utan 200 sjómílna ef þau leggja fram viðhlítandi greinargerð fyrir tilkalli sínu og það stangast ekki á við kröfur annarra þjóða. Til þess að undirbúa slíka greinargerð hafa undanfarin 6 ár verið gerðar umfangsmiklar mælingar á landgrunni þeirra svæða sem um er rætt og og samdar greinargerðir til stuðnings þess tilkalls sem Íslendingar ætla að gera. Orkustofnun hefur fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins stýrt þessu verki en sótt sérfræðiþekkingu til Íslenskra orkurannsókna, Hafrannsóknastofnunar og erlendra verktaka. Þar hefur Steinar Þ. Guðlaugsson hjá Íslenskum orkurannsóknum gegnt lykilhlutverki sem verkefnisstjóri.
Hér má nálgast stærri útgáfu af kortinu