Fréttir


Hlaup er hafið í Skaftá (28.09.2006)

28.9.2006

Hlaup hófst í Skaftá síðdegis í gær, 27. september.  Hlaupið fór mjög rólega af stað og verður væntanlega ekki stórt þar sem hvorugur Skaftárkatla hefur fyllst.  Rennslið hefur vaxið úr um 90 m³/s í um 170 m³/s klukkan átta í kvöld.  Stórt hlaup kom úr Eystri-Skaftárkatli í april á þessu ári og hlaup kom úr vestari katlinum í byrjun águst á síðasta ári. Venjulega eru katlarnir um tvö ár að fyllast aftur eftir Skaftárhlaup.

Fyrstu merki um hlaupið á mælum Orkustofnunar voru þau að rennsli fór vaxandi við Sveinstind í gær.  Einnig jókst ljósgleypni vatnsins vegna þess að það varð aurugra en venjulegt er.  Hlaupvatnið náði niður í byggð í dag og hefur fundist brennisteinslykt af ánni.

Hægt er að fylgjast með rennsli Skaftár á þremur vatnshæðarmælum. Einn er við Sveinstind, annar í vestari hluta Skaftár í Ása-Eldvatni og sá þriðji við Kirkjubæjarklaustur. Gögn úr þessum mælum er hægt að nálgast á vefsíðu Orkustofnunar.

Eldri fréttir af Skaftárflóðum á vef Orkustofnunar:
25. apríl 2006     2. ágúst 2005    7. október 2003