Norræna ráðherranefndin býður sveitarfélögum á Norðurlöndum til samkeppni um titilinn Norrænt orkusveitarfélag 2011
Norrænu orkumálaráðherrarnir hafa í dag formlega blásið til samkeppni um titilinn ,,Norrænt orkusveitarfélag”. Samkeppninni er ætlað að vekja athygli á og styðja við aðgerðir norrænna sveitarfélaga sem stuðla að sjálfbærum lausnum í orku- og lofts-lagsmálum.
Orkunotkun heimsins og losun gróðurhúsalofttegunda er langmest í borgum og bæjum. Því eru aðgerðir einstakra sveitarfélaga afar mikilvægar þegar minnka á losunina. Aðgerðir þeirra stuðla að framgangi þeirrar sameiginlegu sýnar Norðurlandanna að takast muni í framtíðinni að skapa samfélag sem er óháð jarðefnaeldsneyti og/eða kolefnishlutlaust.
Norræna ráðherranefndin setur orku- og orkutengdar lausnir í loftslagsmálum ofarlega á forgangslista sinn í norrænu samstarfi 2010 og 2011. Það er ástæða þess að í dag ýta norrænu orkumálaráðherrarnir úr vör samkeppni um titilinn ,,Norrænt orkusveitarfélag 2011”. Samkeppnin stendur yfir árin 2010 og 2011 undir formennsku Danmerkur og Finnlands.
Tilgangurinn með samkeppninni er að vekja athygli á verkefnum sem sveitarfélög á Norðurlöndum hafa ráðist í og miða að sjálfbærum lausnum á sviði orku- og orkutengdra lausna í loftslagsmálum. Veittar verða viðurkenningar til þeirra sveitarfélaga sem ráðist hafa í sérstök nýsköpunarverkefni af þessu tagi og tengjast atvinnuþróun í sveitarfélaginu og landshlutanum.
Lykke Friis, loftslags- og orkumálaráðherra Danmerkur: ”Ég er hrifin af þeim mikla krafti sem mörg sveitarfélög leggja í sjálfbærar orkulausnir. Þau ná árangri, hafa sett sér metnaðarfullar áætlanir og sýna ótrúlegan vilja til aðgerða. Því er nauðsynlegt að reynslu þeirra sé komið á framfæri í þeim tilgangi að vekja áhuga enn fleiri sveitarfélaga á Norðurlöndum, og jafnvel annarsstaðar í heiminum, á því að grípa til aðgerða” segir loftslags- og orkumálaráðherra Danmerkur Lykke Friis sem jafnframt er formaður orkusviðs Norrænu ráðherranefndarinnar, og heldur áfram : ,,Með tilnefningu og síðan viðurkenningunni ,,Norrænt orkusveitarfélag” fá þeir sem skara fram úr opinbera viðurkenningu fyrir sitt framlag. Ég tók sjálf þátt í að velja danskar ,,Orkuborgir” á árunum 2008 og 2009 og hlakka mikið til þess að fá að kynnast norrænu verkefnunum.”
Mauri Pekkarinen, atvinnumálaráðherra Finnlands: ,,Hið opinbera gegnir mikilvægu hlutverki sem fyrirmynd í orkunýtni og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Það er jafnvel lagaleg skylda. Sveitarfélögin gegna einnig mikilvægu hlutverki í skipulagningu varðandi landnotkun og flutninga. Þannig hafa þau veruleg áhrif á orkunotkunina. Í Finnlandi hefur lengi tíðkast að ríkisvaldið og sveitarfélögin hafi gert með sér frjálsa samninga um ýmiskonar aðgerðir til bættrar orkunýtni. Hluti þessa er samstarf um endurnýjanlega orkugjafa. Ég er þess fullviss að orkusveitarfélagaverkefnið muni verða lærdómsríkt fyrir okkur á Norðurlöndunum, þannig að við getum orðið öðrum löndum góð fyrirmynd.”
Samkeppninni ,,Norrænt orkusveitarfélag 2011” er ætlað, með tilnefningu allt að þriggja sveitarfélaga í hverju Norðurlandanna og sjálfstjórnarsvæði og síðan með vali á einu Norrænu orkusveitarfélagi, að beina athyglinni að sjálfbærum lausnum norrænna sveitarfélaga á sviði orku- og loftslagsmála. Öll verkefnin sem tilnefnd verða munu sýna hvernig norræn sveitarfélög, hvert um sig, geta lagt sitt af mörkum með áþreifanlegum og varanlegum aðgerðum sem stuðla að grænum vexti og orkuframboði í framtíðinni. Verkefnið ,,Norrænt orkusveitarfélag” mun stuðla að aukinni vitund um sjálfbærar orkulausnir og skapa samstarfsgrundvöll fyrir norræn sveitarfélög.
Á heimasíðunni www.nordicenergymunicipality.org er að finna ítarlegar upplýsingar um samkeppnina, umsóknareyðublöð og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Heimasíðunni er ætlað að virka sem ,,sýningargluggi” fyrir fjölbreyttar staðbundnar orkulausnir, bæði á Norðurlöndunum sjálfum og utan þeirra. Þá munu öll verkefnin sem tilnefnd verða til verðlauna verða kynnt á heimasíðunni.
Staðreyndir um samkeppnina:
- Öll norræn sveitarfélög sem ráðist hafa í stefnumarkandi orkuverkefni geta tekið þátt. Hvert sveitarfélag getur einungis lagt inn umsókn vegna eins verkefnis.
- Orkuverkefni á vegum sveitarfélags er skilgreint sem verkefni sem er sterkur þáttur í skipulagi sveitarfélagsins. Ekki er skilyrði að sveitarfélagið leiði verkefnið.
- Hvert Norðurlandanna og sjálfstjórnarsvæði getur tilnefnt þrjú sveitarfélög. Valið er í höndum dómnefndar í hverju landi/sjálfstjórnarsvæði.
- Umsóknarfrestur er til 20. janúar 2011.
- Nöfn þeirra sveitarfélaga sem tilnefnd eru verð kunngerð vorið 2011
- Sigurvegarinn verður síðan valinn af Norrænni dómnefnd.
Umsýsla verkefnisins hér á landi er í höndum Orkustofnunar:
Umsjónarmaður: Jakob Björnsson - sími 5696083 - 8944280 netfang: jbj@os.is