Fréttir


Vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu um raforkuverð

4.10.2006

Vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu 3. október sl. um raforkuverð vill Orkustofnun taka fram að í nýútkomnu riti Orkustofnunar um orkumál á Íslandi, Energy in Iceland, sem vísað er til í blaðinu, (Energy in Iceland) kemur fram að raforkuverð til heimila hér á landi er sambærilegt við það sem gerist í mörgum löndum Vestur-Evrópu sem notuð eru til samanburðar.

Myndin sem fylgir umfjölluninni sýnir verð í janúar, umreiknað í evrur, en þá var gengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni hátt. Samanburður við önnur lönd er alltaf háður gengi krónunnar á hverjum tíma.

Samanburður á verði í október verður mun hagstæðari fyrir Íslendinga, þar sem krónan hefur veikst verulega gagnvart evrunni frá áramótum. Raforkuhækkanir hafa einnig verið miklar í nágrannalöndunum á sama tíma og þær hafa einungis verið lítilsháttar hér á landi og töluvert undir verðlagsbreytingum. Sjá frekari umfjöllun í greinargerð Orkustofnunar um raforkuverð til heimilisnotkunar.