Fréttir


Vettvangur um vistvænt eldsneyti: Áfangaskýrsla

16.10.2006

Á nýliðnu Orkuþingi 2006 kynnti Vettvangur um vistvænt eldsneyti drög að áfangaskýrslunni Stefna Íslendinga í eldsneytismálum ásamt tillögum að aðgerðum stjórnvalda. Í skýrslunni er farið yfir störf Vettvangsins, þar er yfirlit yfir helstu möguleikana sem við stöndum frammi fyrir og einnig eru þar tillögur að breytingum á lögum um eldsneyti, ásamt öðrum aðgerðum stjórnvalda.

Vettvangur um vistvænt eldsneyti er samstarfsverkefni sex ráðuneyta um leiðir til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og hvetja til notkunar á vistvænu eldsneyti. Að Vettvanginum standa ráðuneyti fjármála, iðnaðar, samgangna, sjávarútvegs, umhverfismála og utanríkismála. Framkvæmdastjóri Vettvangsins er Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur hjá Orkustofnun.

Í áfangaskýrslunni er borin fram sú megintillaga Vettvangsins að opinber gjöld af ökutækjum verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að skilgreina sérstaklega gjöld fyrir þjónustu og tengja öll önnur gjöld af stofnkostnaði, árlegri notkun og eldsneytisnotkun við losun á koltvísýringi.

Ágústa Loftsdóttir tekur við athugasemdum við efni skýrslunnar og má senda þær með tölvupósti á netfangið asl@os.is eða með bréfpósti sendum á Ágústu Loftsdóttur, Orkustofnun Akureyrarsetur, Borgum Norðurslóð, 600 Akureyri, fyrir lok október 2006.

Drög áfangaskýrslunnar má nálgast hér