Fréttir


Útskrift frá Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

23.10.2006

Tuttugasti og áttundi árgangur Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaðist  föstudaginn 20. október sl.

Nemendurnir sem útskrifast að þessu sinni eru 21 og koma frá Aserbæjan 1, Filippseyjum 2, Indónesíu 3, Íran 2, Kenýa 2, Kína 2, Kostaríka 2, Mongólíu 2, Níkaragúa 1, Tansaníu 1, Tyrklandi 1, og Úganda 2. Þetta er í fyrsta sinn sem nemandi kemur frá Aserbæjan.

Að þessum nemendum meðtöldum hafa alls 359 nemendur frá 40 löndum lokið sex mánaða námi við skólann frá því hann tók til starfa 1979. Um 44% nemenda hafa komið frá Asíu, 26% frá Afríku, 16% frá Mið- og Austur-Evrópu og 14% frá Rómönsku Ameríku. Fimmtíu og sjö konur hafa útskrifast (16%).

Á þessu ári hafa níu nemendur stundað meistaranám við Háskóla Íslands á vegum Jarðhitaskólans. Einn þeirra útskrifaðist á árinu (frá Kenýa) en sex hófu nám á árinu (frá Djíbútí, Filippseyjum, Íran, og Kína). Meistaranemarnir hafa allir lokið hefðbundnu 6 mánaða námi við Jarðhitaskólann á undanförnum árum og telst það hluti af meistaranáminu.

Síðar á árinu verður Jarðhitaskólinn með námskeið í Kenýa fyrir jarðhitamenn í sjö Afríkulöndum og annað námskeið í El Salvador fyrir yfirmenn orku- og umhverfismála í Mið-Ameríku. Námskeiðin eru hluti af framlagi Íslands til Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Á meðfylgjandi mynd sem Snorri Zóphóníasson tók má sjá útskriftarhópinn ásamt starfsmönnum Jarðhitaskólans.
frett_23102006