Fréttir


Frumvarp um flutning Vatnamælinga til Íslenskra orkurannsókna

6.11.2006

Áform eru nú uppi um að starfsemi Vatnamælinga Orkustofnunar flytjist um áramót til Íslenskra orkurannsókna. Þetta var kynnt á sameiginlegum starfsmannafundi með OS og ÍSOR þann 23. október síðastliðinn, þar sem Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri í iðnaðarráðuneytinu sagði frá áformunum.

Föstudaginn 3. nóvember var síðan á ríkisstjórnarfundi samþykkt frumvarp til laga um þessar breytingar og í dag, mánudag, verður frumvarpið væntanlega lagt fram á fundum þingflokka stjórnarflokkanna tveggja.

Árið 2003 voru settar á stofn Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og tók hin nýja stofnun alfarið við starfsemi rannsóknasviðs Orkustofnunar. Íslenskar orkurannsóknir veita alhliða rannsóknar- og ráðgjafarþjónustu á sviði orkumála, náttúrufarsrannsókna og auðlindamála, einkum þó á sviði jarðfræða og jarðhitafræða. Samtímis komu til framkvæmda ný raforkulög sem færðu Orkustofnun aukið eftirlitshlutverk. M.a. af þeim sökum þótti nauðsynlegt að aðskilja sölu á rannsóknarþjónustu frá stjórnsýslunni. Tillaga kom fram á sama tíma um að starfsemi Vatnamælinga yrði flutt frá stofnuninni en ekki varð af því í það skiptið.

Ef af fyrrgreindum breytingum verður, hefur á sviði orkumála að fullu verið skilið á milli eftirlits- og stjórnsýsluþátta annars vegar og rannsóknarþáttarins hins vegar. Hjá Íslenskum orkurannsóknum starfa nú 65 manns og hjá Vatnamælingum um 30. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna verður áfram starfræktur innan vébanda Orkustofnunar.