Fréttir


Miðvikudagserindi 8. nóvember - Framkvæmd Vatnatilskipunar ESB

7.11.2006

Í miðvikudagserindi morgundagsins 8. nóvember fjallar Hákon Aðalsteinsson, sérfræðingur á Orkustofnun, um Hlutverk Orkustofnunar við framkvæmd Vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Erindið hefst kl. 13. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Rætt verður um tilurð og tilgang Water Framework Directive (WFD) sem hefur verið þýtt sem Vatnatilskipun (VT), og farið stuttlega yfir einstakar greinar hennar, einkum þær er snúa að skráningarferlum. Meginmarkmið VT er að tryggja gott ástand vatnakerfa, og það er ekki gott nema vistin þar sé góð. Skilgreining og skráning á ástandi vatna og greining á álagi sem þau verða fyrir getur leitt til þess að grípa þurfi til aðgerða til að bæta ástandið og þannig verða til aðgerðaráætlanir, sem eru lykilatriði við framkvæmd tilskipunarinnar, auk eftirlitsrannsókna til að ganga úr skugga um að aðgerðir skili árangri.

Til þess að geta áttað sig á því hvort vistin er góð eða slæm þarf að skilgreina náttúrulega vist í mismunandi gerðum vatnsfalla. Þar sem aðstæður eru misjafnar í Evrópu er álfunni skipt í vistsvæði (ecoregion). Þurrlendið á Ísland er t.d. sérstakt vistsvæði, en strandsvæðin eru hluti af strandvist N-Atlantshafsins. Skilgreining á náttúrulegri vist getur verið talsverðum erfiðleikum bundið í mörgum ríkjum, og því er áhersla lögð á samvinnu milli ríkja um að finna náttúruleg vistkerfi til viðmiðunar.

Orkustofnun hefur átt aðild að undirbúningi VT. Það á rætur að rekja til hlutverks hennar í mælingum á vatnsbúskapi landsins og því hlutverki sem henni er falið við nýtingu vatnsauðlinda. Allar upplýsingar sem þarf að gera grein fyrir verður að skrá í Landupplýsingakerfi skv. reglum sem skilgreindar eru á grundvelli VT. Vatnamælingar hafa haldið utanum landskerfi upplýsinga sem varða vatnsföll og rennslishætti þeirra. Þekking og reynsla á þessu sviði mun nýtast í þeirri skráningarvinnu sem er framundan.

Samkvæmt EES samningnum er forræði á auðlindum í okkar höndum, en það fellur hins vegar (að langmestu leyti) undir reglur VT hvernig þær eru nýttar, og þarf að gera grein fyrir því. Við þurfum t.d. að búa okkur undir að gera grein fyrir neysluvatnsnámi; notkun þess og förgun þess hluta sem verður að skolpi. Þá liggur fyrir að gera grein fyrir og skrá þær breytingar sem virkjun vatnsafls hefur haft á farvegi og vistkerfi. Liður í mati á því hvort hægt er að endurheimta slík vistkerfi er greining á félags- og efnahagslegum afleiðingum af því að úvega afurð þeirra með öðrum og umhverfisvænni hætti í viðum skilningi á því hugtaki.

frett_08112006
Krossá, 23. okt. 2006.