Fréttir


Tjáningarfrelsi og hollustuskylda opinberra starfsmanna

27.11.2006

Haustmálþing Íslandsdeildar Norræna stjórnsýslusambandsins (NAF) í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ og forsætisráðuneytið var haldið 16. nóvember síðastliðinn í Norræna húsinu. Þorkell Helgason orkumálastjóri fjallaði um tjáningarfrelsi og hollustuskyldu frá sjónarhóli stjórnanda í opinberri stofnun.

Opinberir starfsmenn njóta tjáningarfrelsis eins og aðrir, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í lýðræðisþjóðfélagi er mikilvægt að þeir geti tekið þátt í umræðu um stefnumörkun og skipulag í stjórnsýslu vegna þekkingar sinnar og reynslu. Á hinn bóginn eru opinber störf vandmeðfarin og þurfa stjórnvöld því að hafa tiltekið svigrúm til að móta stefnu og taka ákvarðanir. Er því lagt til grundvallar í íslenskum rétti að hollustuskylda hvíli á opinberum starfsmönnum gagnvart vinnuveitanda sínum. Þá eru opinberir starfsmenn að jafnaði bundnir þagnarskyldu um störf sín. Önnur hlið málsins eru þeir hagsmunir almennings að fjallað sé um málefni stjórnsýslunnar á opinberum vettvangi og þar gegna fjölmiðlar lykilhlutverki.

Í málstofunni var leitast við að varpa ljósi á þessa togstreitu sem kann að skapast á milli tjáningarfrelsis opinberra starfsmanna og hollustuskyldu þeirra. Þrír frummælendur fjölluðu um þetta frá mismunandi sjónarhornum. Í inngangserindi fjallaði Ragnhildur Helgadóttir prófessor við H.R. um réttarstöðu opinberra starfsmanna, Þorkell Helgason orkumálastjóri brást við inngangi hennar út frá sjónarhóli stjórnanda í opinberri stofnun og Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður út frá þeirri skyldu fjölmiðla að upplýsa um starfsemi hins opinbera og gæta hagsmuna almennings.

Hér má nálgast erindi Þorkels, Eru og eiga opinberir starfsmenn að vera múlbundnir?, á pdf-formi.