Fréttir


Skemmdir á Djúpadalsvirkjun

22.12.2006

Síðastliðinn miðvikudag brast jarðvegsstífla uppistöðulóns við Djúpadalsvirkjun II. Sú virkjun er um 4 km innan við Djúpadalsvirkjun I en stöðvarhús hennar er skammt frá brúnni yfir Djúpadalsá þar sem Eyjafjarðarbraut fór í sundur beggja vegna við brúna. Áður hafa orðið skemmdir á sömu jarðvegsstíflu.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvað varð til þess að stíflan gaf sig en kenningar eru um að klakastífla hafi myndast í ánni ofan lónsins sem síðan brast og þá hafi borist gríðalega mikið vatnsmagn í lónið sem gert er fyrir 1,5 gígalítra miðlun og þá byrjað að flæða yfir stífluna sem brast að lokum. Einhverjar aurskriður voru innar í dalnum en þær virðast ekki vera af þeirri stærðargráðu að þær hafi átt að geta haft þessar afleiðingar.

Þriðji möguleikinn er sá að klakastífla hafi myndast við innrennslismannvirki sem leiddi til aukins rennslis í Djúpadalsá eins og víða átti sér stað í þeim hlýindum sem gengið hafa yfir landið samfara úrkomu. Þrýstipípan frá inntaksmannvirkjunum við stífluna virðist hafa sloppið allt niður undir stöðvarhúsið ,í 850 metra fjarlægð, en slitnaði í sundur þegar vatnsflaumurinn rauf jarðveg beggja vegna stöðvarhússins sem stendur ennþá enda byggt á bjargi.

Ekki hefur enn verið gengið úr skugga um ástand túrbínu og rafbúnaðar í stöðvarhúsinu og einhverjar skemmdir urðu líka í stöðvarhúsi Djúpadalsvirkjunar I. Stíflan fyrir ofan húsið virðist hafa staðið af sér árflauminn en þar er um að ræða steypt mannvirki


frett_22122006_1

Mynd af stöðvarhúsinu og hvar þrýstipípan hefur farið í sundur.

frett_22122006_2

Mynd tekin til austurs af jarðvegsstíflunni þar sem hún rofnaði.

frett_22122006_3

Myndin er tekin ofan stíflunnar og sýnir rofið í stíflunni.