Fréttir


Leiðangur á Drekasvæðið

23.9.2010

Nýverið lauk vel heppnuðum leiðangri á Drekasvæðið, en hann stóð yfir 17. ágúst til 15. september. Leiðangurinn var samstarfsverkefni Orkustofnunar, Olíustofnunar Noregs og Hafrannsóknastofnunarinnar.

frett_23092010b

Leiðangurinn var tvískiptur, en í fyrri hlutanum var safnað kjörnum á 30 stöðum, 9 Noregsmegin og 21 Íslandsmegin við markalínuna. Í seinni hluta leiðangursins var svæðið norðan markalínunnar kortlagt fyrir Norðmenn, en árið 2008 var kortlagður stór hluti af svæðinu Íslandsmegin við línuna. Sýnin úr leiðangrinum voru send til greiningar í rannsóknastofu í Noregi m.a. á lífrænum gastegundum í sýnunum, en slíkar mælingar geta gefið til kynna ef t.d. jarðgös djúpt úr jarðlögunum berast eftir sprungum upp í efstu lög setsins á hafsbotninum. Niðurstaðna úr greiningum á sýnum er að vænta í seinni hluta október. Kjarnarnir sem safnað var í leiðangrinum verða rannsakaðir af vísindamönnum við Háskóla Íslands, en lengsti kjarninn sem náðist var rétt tæplega 5 m langur. Leiðangursstjóri í fyrri hluta leiðangursins var Þórarinn Sv. Arnarson frá Orkustofnun, en Guðrún Helgadóttir frá Hafrannsóknastofnuninni var leiðangursstjóri í seinni hlutanum.