Framhald "Kýrholts verkefnisins"
Jarðhitaleit í landi Kýrholts í Viðvíkursveit í Skagafirði
Borunin í Kýrholti er að því leyti sérstök að þar er borað í vatnsríkt jarðhitakerfi sem hitnar niður sem svarar svæðislægum hitastigli. Mikill áhugi jarðvísindafólks á frekari könnun svæða þar sem svo hagar til leiddi til þess að samstarf tókst með Skagafjarðarveitum ehf., átaki um jarðhitaleit á köldum svæðum og Orkusjóði um borun allt að 1.100 metra djúprar holu í Kýrholti. Verkefnið er unnið eftir leiðsögn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings. Tilgangur með verkefninu er tvíþættur. Annars vegar að afla vatns fyrir Skagafjarðarveitur ehf. og hins vegar að afla þekkingar um þær nokkuð sérstöku aðstæður sem eru í Kýrholti. Svipaðar aðstæður eru á nokkrum öðrum stöðum á landinu og eru vonir bundnar við að reynsla sú sem fæst við borunina í Kýrholti geti nýst við hugsanlega nýtingu þeirra svæða í framtíðinni.
Hlé var gert á borun í Kýrholti á fyrri hluta nýliðins árs. Nú er gert er ráð fyrir að unnt verði að hefjast handa á nýjan leik í febrúar 2007. Beðið hefur verið eftir nýjum bor sem verktakinn, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, hefur fest kaup á. Lokið er nauðsynlegum undirbúningi, svo sem stækkun borplans.
Borholan við Kýrholt hitamæld af starfsmanni ÍSOR.