Fréttir


Jarðvarmi er myndefnið á nýju frímerki Vestnorræna ráðsins

20.2.2007

Vestnorræna ráðið er samstarfsráð þinga og ríkisstjórna Færeyja, Grænlands og Íslands sem stofnað var árið 1985. Þessi lönd standa nú í fyrsta sinn að sameiginlegri frímerkjaútgáfu. Þema hennar er endurnýjanleg orka og er myndefnið á íslenska frímerkinu jarðvarmi.

Vestnorræna ráðið skipa 6 fulltrúar frá hverju landi sem tilnefndir eru af viðkomandi þingum. Meðal markmiða ráðsins er að vinna að vestnorrænum hagsmunum og hugðarefnum, vernda auðlindir og menningu landanna í Norður-Atlantshafi og efla samráð ríkis- og landstjórna Vestur-Norðurlanda, einkum í viðkvæmum og alvarlegum málum sem snerta t.d. mengun, auðlindanýtingu og fleira. Vestnorræna ráðið fylgir eftir samstarfi ríkis- og landstjórna vestnorrænu landanna og er tengiliður milli þinga landanna, vestnorrænna stofnana og alþjóðlegra samtaka. Verðgildi frímerkisins er 75 krónur. Hönnuður er Örn Smári Gíslason grafískur hönnuður.