Skýrsla vegna undirbúnings hugsanlegrar olíuleitar á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg
Samkvæmt tillögunni felur áætlunin í sér að gefin verði út sérleyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu, eða á vænlegustu svæðum innan þess. Niðurstöður hljóðendurvarpsmælinga sem unnar hafa verið á svæðinu gefa vísbendingar um að olíu og gas í vinnanlegu magni geti verið að finna þar. Frekari rannsóknir, þar á meðal rannsóknarboranir, þarf hins vegar til að sannreyna hvort olíu eða gas sé að finna á svæðinu
Samhliða gerð áætlunarinnar hefur verið unnið umhverfismat í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana og metin hugsanleg áhrif leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu á umhverfið verði áætlunin samþykkt.