Fréttir


Bifreiðar stjórnarráðsins og flugferðir starfsmanna þess verða kolefnisjafnaðar

17.4.2007

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að allar bifreiðar stjórnarráðsins verði kolefnisjafnaðar. Jafnframt verður öllum ráðuneytum og ríkisstofnunum gert að kolefnisjafna vegna flugferða ríkisstarfsmanna innanlands og erlendis frá og með næstu áramótum.

Þessi samþykkt kemur í framhaldi af því að í gær undirritaði forsætisráðherra ásamt stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og forstjóra Kaupþings samkomulag um stuðning við kolefnissjóðinn Kolvið.

Kolviður var stofnaður að frumkvæði Skógræktarfélags Íslands og Landverndar en hlutverk sjóðsins er að gera landsmönnum kleift að jafna kolefnislosun sína vegna samgangna með því að beita skógrækt sem vopni í baráttunni. Á heimasíðu Kolviðar verður á einfaldan hátt hægt að reikna út hvað hver einstakur bíll losar mikið af koldíoxíði (CO2) á ári og hvað þarf mörg tré til að jafna þá losun (umbreyta koldíoxíðinu í trjávöxt og súrefni). Þannig gefst landsmönnum tækifæri til þess að greiða andvirði þeirra trjáa sem þarf til þess að jafna kolefnismengun þeirra. Kostnaður fer eftir stærð bíla og árlegum akstri en þumalputtareglan er sú að árlega þurfi einstaklingar að greiða andvirði einnar áfyllingar á bílinn. Kolviður gerir langtímasamninga við landeigendur og skógræktendur um ræktun kolefnisskóga á áður skóglausu landi. Í fyrstu mun sjóðurinn einbeita sér að bílaflota landsmanna en síðar er ætlunin að flugfarþegum verði boðið að kolefnisjafna flugferðir.

Á vef Orkuseturs er einnig reiknivél fyrir kolefnisbókhald þar sem sjá má hvað mikið af íslenskum skógi þarf til að binda það magn koltvísýrings sem bifreið blæs út á ári. Valin er bifreiðategund og akstur á ári og niðurstaðan sýnir ársútblástur og nauðsynlega ársbindingu í skógi til að jafna út umhverfisáhrifin.

Ráðuneyti og ríkisstofnanir hafa einnig verið hvött til þess að kaupa vistvænar bifreiðar, s.s. metanbíla, rafmagnsbíla og tvíorkubíla. Sett hefur verið markmið um að fyrir árslok 2012 verði 35% af bílum í eigu ríkisins knúnir vistvænum orkugjöfum.