Nýtt samstarf Evrópuríkja um endurnýjanlega orku
Ríkin eða svæðin sem undirrituðu samstarfssamninginn voru Efra-Austurríki, Ísland, Kýpur, Norðurbotn í Svíþjóð, Slesvík-Holstein í Danmörku og Wales í Bretlandi. Hvert þessara svæða mun leggja til samstarfsins sérþekkingu á tilteknu sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Efra-Austurríki leggur áherslu á orkuvinnslu úr lífefnum, Kýpur hefur sólarorku, Norðurbotn í Svíþjóð leggur fram þekkingu um vatnsvirkjanir, í Slesvík-Holstein skiptir vindorka miklu máli og Wales sérhæfir sig í sjávarorku. Óskað var eftir þátttöku Íslands vegna sérstöðu okkar og þekkingar í vinnslu og notkun jarðhita. Af Íslands hálfu undirritaði Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra hjá Evrópusambandinu, samninginn.
Við undirskriftarathöfnina voru haldin ávörp frá hverju umræddra ríkja eða svæða. Þorkell Helgason orkumálastjóri flutti ávarp fyrir hönd ráðherra orkumála, Jóns Sigurðssonar, sem hafði ekki tök á að vera viðstaddur. Þorkell gerði stutta grein fyrir orkumálum Íslendinga og miðlun þekkingar og útrás á sviði jarðhitamála sérstaklega. Auk fulltrúa aðildarsvæðanna flutti Andris Piebalgs, ráðherra orkumála hjá Evrópusambandinu ítarlegt og þrungið ávarp um nauðsyn þess að hemja loftslagsbreytingarnar og hlut endurnýjanlegra orkugjafa í því sambandi. Ráðherrann nefndi sérstaklega sérstöðu Íslendingu í þessum efnum.
Hið nýja samstarf, sem hefur fengið heitið RENREN (Renewable Energy Regional Network), er á höndum stjórnvalda og mun því í byrjun snúast mikið um stefnumörkun og lagasetningu, en jafnframt er ráðgert samstarf um rannsóknir og tækni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við undirritun samningsins.
Þorkell Helgason orkumálastjóri gerði stutta grein fyrir orkumálum Íslendinga.
Andris Piebalgs, ráðherra orkumála hjá Evrópusambandinu fjallaði um nauðsyn þess að hemja loftslagsbreytingarnar.
Samráðshópurinn eftir undirritun samningsins.
Nýr samstarfssamningur sex ríkja og ríkjahluta um málefni endurnýjanlegrar orku.