Fréttir


Breytingar í ráðuneyti orkumála

23.5.2007

Í kjölfar kosninga til Alþingis þann 12. maí sl. hefur verið mynduð ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og fara ríkisstjórnarskiptin fram á morgun, fimmtudag.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem hafa verið rekin sem eitt ráðuneyti um nokkurt árabil verða nú aðskilin á ný, og tekur Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, við embætti iðnaðarráðherra og þar með orkumálum í nýju stjórninni.

Forsætisráðherra Geir H. Haarde og utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynntu stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum á Þingvöllum skömmu fyrir hádegi í dag.

Í kafla sáttmálans um umhverfismál segir m.a. að ríkisstjórnin einsetji sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Ríkisstjórnin stefni að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum. Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða sé mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar.

Í sáttmálanum segir jafnframt að stefnt verði að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir. Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hafi farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.

Fráfarandi ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála er Jón Sigurðsson, Framsóknarflokki. Hann var skipaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra 15. júní 2006, og tók við af Valgerði Sverrisdóttur, Framsóknarflokki, en hún hafði þá gegnt embættinu frá 31. desember 1999.