Fálkaorðan veitt dr. Kristjáni Sæmundssyni
Kristján hlaut riddarakrossinn fyrir störf í þágu íslenskra jarðvísinda. Kristján er í hópi virtustu vísindamanna á heimsvísu á sviði jarðhita og eldfjallafræði. Rannsóknir hans hafa stóraukið þekkingu manna á jarðfræði Íslands, uppbyggingu gosbelta, megineldstöðum og eðli jarðhitans.
Kristján lauk doktorsnámi frá Háskólanum í Köln árið 1966 og vann allan sinn starfsaldur á Orkustofnun og síðan Íslenskum orkurannsóknum, eftir stofnun þeirra árið 2003, þar sem hann starfar enn. Lengst af gegndi hann stöðu deildarstjóra jarðfræðideildar. Auk almennrar jarðfræðikortlagningar víðs vegar um land var aðalviðfangsefni hans jarðhitaleit, bæði á heitum svæðum og ekki síst á svæðum sem talin höfðu verið köld. Kristján hefur jafnframt stundað ráðgjöf við jarðhitaleit og jarðvarmavirkjanir víða erlendis.
Á Háskólahátíð 21. október 2006 var Kristján kjörinn heiðursdoktor raunvísindadeildar Háskóla Íslands – Doctor scientiarum honoris causa. Áður hafði hann verið kjörinn heiðursfélagi í bandaríska jarðfræðafélagsinu Geological Society of America, árið 1993, og hlotið heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Wright árið 2003.