Samráðsþing um frönsk-íslensk orkumál
Að málþinginu stóðu franska senatið (öldungadeild franska þingsins), sendiráð Íslands í Frakklandi og Fransk-íslenska verslunarráðið. Landsbankinn veitti þinginu fjárhagslegan stuðning.
Þorkell Helgason orkumálastjóri flutti yfirlitserindi um íslensk orkumál, stöðu þeirra, sögulega þróun og sýn á framtíðina. Sérstaklega voru rakin ákvæði um orku- og umhverfismál úr sáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þá fór orkumálastjóri orðum um útrás Íslendinga í orkumálum og loks nefndi hann dæmi um núverandi og hugsanlegt samstarf Frakka og Íslendinga á orkusviði. Meðal annars sagði hann frá verkefni um áhrif loftslagsbreytinga á vatnsorku og nýtingu jarðhita af miklu dýpi, en einnig um leiðir til að nýta endurnýjanlega orku í samgöngum, svo sem með rafbílum, tengiltvinnbílum, vetnisbílum með lífeldsneyti og um beitingu hagrænna hvata til að hraða þróuninni. Að lokum nefndi hann sem æskilegan samstarfsflöt förgun koltvísýrings með bindingu í basalti.
Inngangsávörp fluttu tveir franskir þingmenn, sendiherra Íslands í Frakklandi, Tómas Ingi Olrich, sendiherra Frakka á Íslandi, Nicole Michelangeli, og formaður Fransk-íslenska verslunarráðsins, Emmanuel Jacques. Þá fluttu fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur, Enex, Geysis Green Energy og Landsvirkjunar ásamt Halldóri Kristjánssyni, bankastjóra Landsbankans, kynningu á útrásarverkefnum fyrirtækja sinna á sviði orkumála. Talsmenn franska iðnaðarráðuneytisins og EdF, landsvirkjunar þeirra Frakka, svöruðu með yfirlitserindum um orkumál Frakka. Þinginu lauk með málsverði í boði senatsins auk móttöku í sendiráði Íslands þar sem færi gafst til að halda áfram viðræðum. Var það mál manna að samráðsþingið hafi heppnast vel.