Fréttir


Gestafyrirlesari Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna 2007

25.8.2007

Gestafyrirlesari Jarðhitaskólans á þessu ári er Antonio Rodriguez, forstjóri LaGeo orkufyrirtækisins í El Salvador. LaGeo er hliðstætt Landsvirkjun hér á landi, en framleiðir eingöngu rafmagn í jarðgufuvirkjunum.

Jarðgufuvirkjanir anna 26% af raforkuframleiðslu El Salvador, vatnsaflsstöðvar 27%, innflutt olía 44% og lífmassi 3%. Íslendingar komu mikið að forrannsóknum sem leiddu til fyrstu jarðgufuvirkjunar El Salvador í Ahuachapan. Enex hf sér um vélbúnað í nýrri tvívökvastöð LaGeo sem er í byggingu á Berlin jarðhitasvæðinu. Tuttugu og fimm jarðvísindamenn og verkfræðingar frá El Salvador hafa lokið námi við Jarðhitaskólann og eru flestir þeirra starfsmenn LaGeo.

Antonio Rodriguez útskrifaðist sem eðlisfræðingur frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum 1984. Hann lauk meistaranámi í jarðeðlisfræði við Háskólann í  British Columbia í Vancouver í Kanada 1986 og starfaði sem jarðeðlisfræðingur hjá kanadískum fyrirtækjum til 1992. Þá flutti hann heim til El Salvador og starfaði á skrifstofu forseta El Salvador til 1994. Árið 1995 var hann ráðinn til Landsvirkjunar El Salvador (CEL) sem yfirmaður jarðhitamála og síðar sem forstjóri LaGeo 1999 þegar Landsvirkjun El Salvador var skipt upp í vatnsorkufyrirtæki (CEL) og jarðhitafyriræki (LaGeo).

Antonio Rodriguez flytur fyrirlestra í Víðgelmi, sal Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna í Orkugarði, Grensásvegi 9, dagana 27. - 31. ágúst. Fyrirlestrarnir hefjast kl. 9:15 og standa yfir í um það bil eina klukkustund.

Efni fyrirlestranna er sem hér segir:

Mánudagur 27. ágúst: Geothermal development in Central America.
Þriðjudagur 28. ágúst: Phased development in the Ahuachapan and Berlin geothermal fields.
Miðvikudagur 29. ágúst: Geothermal, the environment, and neighbouring communities.
Fimmtudagur 30. ágúst: Corporate culture and human resource management in LaGeo.
Föstudagur 31. ágúst: Economics and financing of geothermal projects in Central America.

Fyrirlestranir eru öllum opnir.