Skipun verkefnisstjórnar til að undirbúa rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða
Markmið rammaáætlunarinnar er að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði. Í áætluninni skal leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita og áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina og meta áhrif á hagsmuni allra þeirra sem nýtt geta þessi sömu gæði.
Skipulag rammaáætlunarinnar er þríþætt. Heildarstjórn verkefnisins er í höndum verkefnisstjórnar, en meginhlutverk hennar er að semja tillögu að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Undir verkefnisstjórn starfa faghópar skipaðir af sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem ætlað er að fara yfir virkjunarkosti hver frá sínum sjónarhóli, meta þá með stigagjöf og gera tillögur til verkefnisstjórnar. Fjöldi faghópa og skipan þeirra verður ákveðin af verkefnisstjórninni. Loks verður hagsmuna- og áhugaaðilum boðin þátttaka í sérstökum vettvangi sem ætlaður er til samráðs vegna verkefnisins.
Verkefnisstjórnin skal ljúka störfum og skila skýrslu til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra með heildarmati og flokkun á þeim kostum sem teknir hafa verið til umfjöllunar fyrir 1. júlí 2009.
Iðnaðarráðherra mun á grundvelli niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar og að höfðu samráði við umhverfisráðherra og verkefnisstjórnina leggja fyrir Alþingi fyrir lok ársins 2009 tillögu að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðvarmasvæði. Þetta verkefni er því mikilvægur hluti af því markmiði ríkisstjórnarinnar að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða, sem fjallað er um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Nánar á vef iðnaðarráðuneytisins