Fréttir


Bræðslubor Vatnamælinga á Vísindavöku

28.9.2007

Kynning á rannsóknarverkefni í Skaftárkötlum í Vatnajökli verður framlag Orkustofnunar til Vísindavöku Rannís, sem haldin verður í Hafnarhúsinu föstudaginn 28. sept. kl. 17-21.

Bræðslubor Vatnamælinga verður til sýnis auk búnaðar, sem notaður var til sýnatöku og mælinga í lónunum undir Vestari- og Eystri Skaftárkatli.

Sameiginlegt rannsóknaverkefni Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og MATÍS í kötlunum verður kynnt á veggspjöldum.

Einnig verða sýndar á stórum tölvuskjá myndir úr velheppnuðum leiðangri til eystri ketilsins í júní 2007. Þá var í fyrsta sinn borað í gegnum 300 m þykka íshelluna í katlinum, safnað sýnum til jarðefna- og örverufræðilegra greininga úr 100 m djúpu lóni undir íshellunni og settir niður nemar sem skráðu hita og vatnsborð í lóninu á liðnu sumri.

Fjórir starfsmenn Vatnamælinga Orkustofnunar, þeir Þorsteinn Þorsteinsson (verkefnisstjóri), Vilhjálmur Kjartansson, Bergur Einarsson og Gunnar Sigurðsson hafa unnið að þessu verkefni 2006-2007.

frett_28092007_1
Bræðsluborun í Eystri-Skaftárkatli

frett_28092007_2
Gengið frá mastri með skráningartækjum

frett_28092007_3
Sýnataki undirbúinn